Það er ekki daglegt brauð að íslenskt netfyrirtæki sem er sannkölluð gullkú skjótist fram á sjónarsviðið. Það gildir þó um íslenska leikjasíðan Cardgames.io sem er umfjöllunarefni á forsíðu Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Alls hefur rekstrarfélag síðunnar, Rauðás hugbúnaður ehf., hagnast um 636 milljónir króna undanfarin tvö ár. Maðurinn á bak við fyrirtækið er tölvunarfræðingurinn Einar Þór Egilsson sem ákvað fyrir áratug að forrita uppáhaldsspilið sitt, skítakall, í frítíma sínum í kjölfar þess að hann fann enga nothæfa útgáfu af spilinu á netinu.
Í kjölfarið vatt áhugamálið upp á sig og núna er inni á síðunni fjölmargir leikir eins og veiðimaður, kapall, skák, sudoku, yahtzee svo einhverjir séu nefndir. Alls eru 42 leikir inná síðunni í dag. Viðmót síðunnar er afar einfalt en aðgengilegt og hefur greinilega slegið í gegn því að tekjur fyrirtækisins byggjast á Google auglýsingum. Í viðtali við Viðskiptablaðið lýsir Einar Þór því hvernig að fyrst um sinn hafi hann haft 1-2 dollara tekjur af síðunni en síðan hafi ákveðnum áfanga verið náð þegar tekjurnar urðu 100 dollarar. Það hafi gert það að verkum að hann fékk sinn fyrsta tékka frá Google.
Í dag sé síðan staðan sú að 400 þúsund manns heimsækja síðuna á hverjum degi og hafa margir spilarar haldið tryggð við síðuna í áratug.
Nánar er hægt að lesa um málið í umfjöllun Viðskiptablaðsins.