Greint var frá því í gær að Þórólfur Guðnason væri tregur til að afnema sóttvarnatakmarkanir vegna RS-veiru og inflúensu. Tóku margir þessum orðum frá Þórólfi með mikilli reiði og var hann harðlega gagnrýndur fyrir þau. Þórólfur var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi á RÚV í kvöld þar sem rætt var um þessi ummæli.
Í upphafi þáttarins segir Þórólfur að það sé greinilegt að fólk hafi misskilið hann. „Það sem ég er að tala um, og þetta er ekki frá mér komið, þessi orð, þetta er það sem sóttvarnastofnun Evrópu hefur lagt fyrir og hvatt aðildarríkin til að huga að,“ segir hann og bendir á að ástæðan fyrir því að RS-veiran og inflúensan skipti máli sé því fólk gæti þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda vegna þeirra.
„Við erum að tala um það að eitt af meginmarkmiðum aðgerða gegn Covid, við höfum alltaf sagt það og sérstaklega núna í þessari bylgju, að bæla niður til að þetta væri viðráðanlegt fyrir spítalann,“ segir Þórólfur. „Ef við höldum kúrvunni þannig að spítalinn verður alveg á mörkum þess að geta ráðið við það þá getur skapast vont ástand ef inflúensan, sem margir eru búnir að spá að verði slæm í vetur, verði mjög slæm og sömuleiðis með RS-veiruna, það er það sem ég á við. Ég er ekki að gera eins og menn hafa sagt, að ég vilji bara fara að beita þessum aðgerðum gegn inflúensu og RS og þetta verði bara einhver árlegur viðburður, það er alls ekki þannig.“
Þórólfur bendir þá á að ólíkt kórónuveirunni þá fara inflúensan og RS-veiran á brott. „Veirur koma en þær fara, þær ganga yfir á nokkrum vikum en svo er það búið,“ segir hann.
Einar gekk þá hart að Þórólfi og vildi fá svör við því sem margir hafa velt fyrir sér, verður alltaf tilefni til að halda sóttvarnatakmörkunum. „En svo kemur bara sumar og það verður ferðamannasumar, það koma hingað 2 og hálf milljónir manna og mikið af innlögnum verða út af ferðamönnum. Ég meina, verða ekki alltaf einhver tilefni? Fólk dettur á götunum en þú vilt ekki halda fólki inni,“ segir Einar.
Þórólfur svarar því játandi. „Jújú, það er alveg rétt. En það er einmitt áskorun heilbrigðisyfirvalda, að sjá til þess að geta heilbrigðiskerfisins sé þannig að hún geti fást við þá hluti sem hún þarf að fást við,“ segir hann.
„Það er alveg ljóst að í þessari bylgju, þegar álagið var svona gífurlega mikið á spítalanum, það var nánast, myndi ég segja, neyðarástand á spítalanum. Það var verið að fresta valkvæðum aðgerðum, það var verið að fresta ýmsu sem spítalinn átti að gera, það var verið að kalla eftir starfsfólki erlendis frá og innanlands. Þetta var mjög alvarlegt ástand. Hvað ætlum við að gera ef spítalinn ræður ekki við það sem hann á að gera?“
Þórólfur segir í þættinum að það sé misskilningur að hann sé aðilinn sem er að skerða frelsi landsmanna. „Það er mikill misskilningur að það sé ég sem er að skerða frelsi fólks. Ég kem með tillögur út frá sóttvarnarsjónarmiðum um það hvernig faraldurinn er og hvernig tekst að höndla hann og hvernig það kemur niður á öðrum sjúklingahópum,“ segir hann og skellir síðan skuldinni á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
„Síðan er það náttúrulega ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun um þetta. Þannig það er ekki ég sem geri þetta, ég kem með tillögur og endanleg ákvörðun liggur hjá ráðherra.“