fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Bræðrabylta á Hótel Keflavík: Saka Steinþór um valdníðslu – Davíð meinað um afgreiðslu á sínu eigin hóteli

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 14. október 2021 16:00

Hótel Keflavík. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næststærsti hluthafinn í rekstri Hótels Keflavíkur, Davíð Jónsson, er í þeirri sérkennilegu stöðu að hann fær ekki afgreiðslu á veitingastað hótelsins. Áður hefur hann mátt þola að vera rekinn úr starfi aðstoðarhótelstjóra og bolað úr stjórn félagsins. Að sögn Davíðs er þetta runnið undan rifjum bróður hans, Steinþórs Jónssonar, sem vilji fara með öll völd í þessu merka fjölskyldufyrirtæki og hagnýta sér eignina á alla lund.

Hótel Keflavík er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 1986 af Jóni William Magnússyni. Eiginkona Jóns, Unnur Ingunn Steinþórsdóttir, lést árið 2010. Jón lést árið 2014 og eftir það komst fyrirtækið í að fullu í eigu fjögurra barna hjónanna.

Steinþór Jónsson, bróðir Davíðs, hefur reynt að fá lögbann á komu Davíðs og eiginkonu hans, Evu Dögg Sigurðardóttir, á hótelið, og starfsfólki er bannað að afgreiða þau.

Hjónin Davíð og Eva ræddu við DV um málið og sýndu blaðamanni ýmis gögn er varðar málarekstur og hluthafavendingar í fyrirtækinu. Árið 2018 rak Steinþór bróður sinn úr starfi aðstoðarhótelstjóra Hótel Keflavíkur og skömmu síðar var Davíð vísað úr stjórn félagsins.

Í dag situr einn maður í stjórn, Pétur Jónsson, sem er jafnframt stjórnarformaður. „Er honum stjórnað af Steinþóri Jónssyni og tel ég hann vera svokallaðan skuggastjórnanda og þá er öðrum hluthöfum ekki svarað af hálfu félagsins,“ segir Davíð.

Undanfarið eitt og hálft ár þá hafa farið fram hlutafjárhækkanir sem virðast gerðar með það að markmiði að þynna hlut Davíðs og annara hluthafa, að mati Davíðs. Telur hann hlutafjáraukningarnar tilhæfulausar en á sama tíma hefur reksturinn gengið vel og skilað jákvæðum tölum og þá sérstaklega með tilliti til Covid-kreppunnar.

Hlutur Magnúsar Jónssonar, bróður þeirra, í hlutafélaginu, varð þannig að engu eftir fyrstu hlutafjárhækkunina. Stjórnarformaður félagsins, Pétur Jónssonar, bauð þá aðeins Steinþóri og Guðlaugu Helgu systur þeirra að kaupa hlut Magnúsar.  Eftir kvörtun frá Davíð til Fyrirtækjaskrár var honum einnig gefinn kostur á að kaupa í hlut Magnúsar og á Davíð því stærri hlut nú í Hótel Keflavík en áður.

„Ég hef orðið að leggja 20 milljónir í fyrirtækið til að halda mínum eignarhlut í því. Mér er síðan meinað að sitja inni á þessum stað sem hefur verið mitt annað heimili í þrjá áratugi,“ segir Davíð.

Segja Steinþór vilja ná öllum völdum í fjölskyldufyrirtækinu

Davíð og Eva segja það ekki gefa rétta lýsingu á ástandinu í Hótel Keflavík að þar séu bræður að berjast um yfirráð, heldur snúist þetta um yfirgang Steinþórs sem vilji ná öllum völdum í fjölskyldufyrirtækinu. „Hef ég fram að þessu álitið bróðir minn, Steinþór Jónsson, vera góðan og duglegan mann, eins og hann vill láta líta út fyrir á yfirborðinu, en því miður þá hefur annað komið á daginn eftir andlát foreldra okkar,“ segir Davíð.

Hluthafafundur hefur verið boðaður næsta mánudag og mun þá verða lögð til frekari hlutafjáraukning í félaginu. Verði hún samþykkt stendur Davíð frammi fyrir þeim kostum að annaðhvort verði hlutur hans í félaginu þynntur út eða hann þurfi að ausa enn meiri peningum í félagið til að halda eignarhlutnum.

Sem fyrr segir á Davíð 20% í rekstrarfélagi Hótels Keflavíkur og hefur hann þurft að setja 20 milljónir inn í fyrirtækið á undanförnum mánuðum í hlutfjáraukningu til að halda eignarhlutnum. Davíð er næststærsti hluthafinn í félaginu en Steinþór á 54%. Annað félag, JWM, er síðan utan um fasteignir sem tengjast rekstrinum og á Steinþór 67% hlut í því.

Niðurlægjandi framkoma

Davíð og Eva saka Steinþór um að rægja sig kerfisbundið við stjórn félagsins og starfsfólk hótelsins. Einu sinni, er Davíð sat í veitingasal hótelsins, kom lögregla til hans og tjáði honum að þess hefði verið óskað að hann yfirgæfi svæðið. Davíð svaraði lögreglumönnum á þá leið að hann hygðist ekki yfirgefa staðinn enda væri hann einn af eigendum hótelsins. Lögreglumennirnir fóru þá burt af staðnum án þess að aðhafast frekar.

Davíð og Eva hafa síðan upplifað ítrekað undanfarið að þeim hefur verið meinuð afgreiðsla á veitingastað hótelsins. „Þetta er mjög niðurlægjandi upplifun,“ segir Eva en þessar uppákomur hafa verið í viðurvist vina þeirra og fyrir framan starfsfólk á hótelinu sem þau hafa haft áralöng kynni við.

Þann 5. ágúst síðastliðinn lagði Hótel Keflavík síðan fram áðurnefnda lögbannsbeiðni á hendur hjónunum til Sýslumannsins á Suðurnesjum. Í beiðninni voru hjónin sökuð um áreitni við starfsfólk, meðal annars að taka upp samskipti sín við starfsfólk á farsíma.

Í andsvari sínu við lögbannsbeiðninni segir Davíð að þar sé mjög frjálslega farið með sannleikann. Hann kannist við að hafa tekið tiltekin samskipti upp á farsíma með vitneskju starfsfólks, en hann og eiginkona hans hafi ávallt sýnt fyllstu kurteisi á staðnum. Orðrétt segir Davíð í andsvari sínu: „Fer ég því fram á að lögbannsbeiðnin verði látin niður falla enda ekkert sem mælir með því að mér og eiginkonu minni sé meinaður aðgangur að Hótel Keflavík og þeirri þjónustu sem þar er í boði en þar er einn besti veitingastaðurinn í bænum ásamt glæsilegum bar, enda samræmist það ekki jafnræðisreglu hluthafa.“

Úrskurður sýslumanns var á þann veg að hafna lögbannsbeiðninni enda samrýmdist hún ekki lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. frá árinu 1990.

Davíð og Eva telja að meginástæða þess að Steinþór vilji halda þeim frá hótelinu sé sú að þau verði ekki vitni að því hvernig hann gangi um reksturinn sem sína einkaeign, þvert á réttindi annarra hluthafa.

Steinþór tjáir sig ekki

DV hafði samband við Steinþór Jónsson vegna málsins. Hann kýs að tjá sig ekki: „Þetta mál er bara í lögformlegu ferli og við kjósum að tjá okkur ekki um það,“ sagði hann og vísar til að þess að úrskurður sýslumanns í lögbannsmálinu verður borinn undir héraðsdóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna
Fréttir
Í gær

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar