Í Héraðsdómi Reykjavíkur var í dag tekið fyrir mál ákæruvaldsins gegn Jóni Baldvin Hannibalssyni. Í ákæru er Jón Baldvin sagður hafa áreitt Carmen Jóhannsdóttur kynferðislega með því að strjúka rassi hennar utanklæða upp og niður.
Carmen var þá stödd í matarboði á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar á Spáni í júní 2018 ásamt móður sinni, yngri systur og íslenskri vinkonu þeirra hjóna.
Kolfinna Baldvinsdóttir, dóttir Jóns Baldvins, er allt annað en sátt með að málið gegn föður hennar hafi farið í dómssal. Hún birti færslu á Facebook eftir að málið var tekið fyrir í dag þar sem hún kallaði það „glórulausan vitleysisgang“.
„Jæja, þá er þessum glórulausa vitleysisgangi lokið,“ segir Kolfinna í upphafi færslunnar. Þá er hún með spurningu til ákæruvaldsins. „Mín spurning er einfaldlega þessi: hvað gengur ákæruvaldinu til? Með því að hleypa þessu máli, um rassastroku sem aldrei átti sér stað, eins og vitni staðfesta, inn í dómsal, hvaða afleiðingar hefur það?“
Kolfinna gerir þá lítið úr málinu. „Getum við þá öll sett upp lista um meintar rassastrokur og þrammað okkur niður á lögreglustöð núna? Hefur ákæruvaldið ekki nóg að gera með alvöru glæpi í þessu brotna samfélagi okkar?“