fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fréttir

„Jón Baldvin, þú átt að biðja dóttur mína afsökunar. Þú káfaðir á henni. Ég sá það“

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 11. október 2021 10:20

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn Jóni Baldvin Hannibalssyni stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur en dagskrá hófst klukkan 9.15 þegar Jón Baldvin kom fyrir dóminn.

Í ákæru er Jón Baldvin sagður hafa áreitt Carmen Jóhannsdóttur kynferðislega með því að strjúka rassi hennar utanklæða upp og niður. Carmen var gestkomandi á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í Andalúsíu á Spáni þann 16. júní 2018, ásamt móður sinni og fleiri gestum í kjúklingaveislu. Móðir Carmenar er Laufey Ósk Arnórsdóttir.

Jón Baldvin kom fyrir dóm í morgun og neitaði sök.

„Tók um það bil eina mínútu“

„Það sem gerðist tók um það bil eina mínútu,“ sagði Jón Baldvin fyrir dómi í morgun. Hann sagði umrædda atburði hafa átt sér stað sama dag og Ísland hafi keppt á heimsmeistaramótinu í fótbolta þar sem markmaðurinn Hannes Þór Halldórsson varði mark frá hinum fræga Messi, og hafði Jón Baldvin orð á því fyrir dómi að Hannes væri meðal annars orðinn frægur í Kína vegna þessa.

Hann sagði að um hefði verið að ræða matarboð síðdegis þennan dag.

„Gerðist eitthvað saknæmt á þessari mínútu? Svarið við því er nei. Það er stutt öflugum vitnum,“ sagði hann. „Ég sver þess dýran eið að það sem sagt er að gerðist, það gerðist ekki.“

„Sprettur upp og gefur yfirlýsingu“

Jón Baldvin lýsti því sem svo gerðist eins og það birtist honum: „Allt í einu gerist það að Laufey Ósk sprettur upp og gefur yfirlýsingu: „Jón Baldvin, þú átt að biðja dóttur mína afsökunar. Þú káfaðir á henni. Ég sá það.“ Þetta kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Ég vissi ekki hvað var á seiði,“ sagði Jón Baldvin fyrir dómi og bætti við að um leið og Laufey hafi sagt þetta hafi Carmen sprottið upp og sagt: „Mamma, ég get talað fyrir mig sjálf.“

Jón Baldvin segir að við þetta hafi borðhaldið leysts upp. „Það er eins satt og að ég sit hér, að við áttum ekki von á þessari uppákomu. Við vorum bara þrumu lostin, furðu lostin,“ sagði Jón Baldvin og bætti við að „Laufey hafi birst okkur eins og umskiptingur.“

„Þær nota nafn #metoo ófrjálsri hendi“

Hann hélt því fram að tvær ástæður gætu verið að baki ásökuninni. „Önnur er sú að Laufey hafi ekki verið sjálfrátt, því þetta er ekki henni líkt,“ sagði Jón Baldvin og hélt því fram að Laufey hafi drukkið áfengi ofan í lyf sem ekki mátti drekka ofan í, og að „hún hafi umhverfst“ vegna þessa.

Hin skýringin, að mati Jóns Baldvins, er sú að þær mæðgur hafi ekki komið í matarboð vegna vináttu heldur hafi verið um að ræða tilraun til að setja ákveðna atburðarás á svið. Hann sagði árásir hafa komið fram gegn honum í tengslum við #metoo byltinguna. Þar hafi margar frásagnirnar verið gamlar og þær konur sem voru í forsvari fyrir #metoo hafi vantað nýjar sögur. „Þær nota nafn #metoo ófrjálsri hendi,“ sagði hann.

Næst kemur fyrir dóminn Carmen sem ber vitni í gegn um fjarfundarbúnað frá Spáni. Í janúar á þessu ári felldi Landsréttur úr gildi frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á málinu og málinu vísað aftur til héraðsdóms til munnlegs málflutnings. Sá málflutningur fer fram í dag. Bryndís Schram fylgdi manni sínum í dómsal í morgun en fór svo. Dóttir þeirra Aldís Schram mætti hins vegar í dómsal til að sýna Carmen stuðning í málinu.

Sjá einnig: Frávísun í máli Jóns Baldvins felld úr gildi – Kynferðisbrotamál aftur til héraðsdósms

Eins og DV greindi frá var frávísunin ekki vegna efnisþátta málsins heldur vegna þess að úrskurður um frávísun var ekki kveðinn upp innan lögbundins tímaramma, sem eru fjórar vikur. Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu Jóns fór fram 23. nóvember 2020 en úrskurður um frávísun var kveðinn upp 7. janúar 2021. Stundin greindi fyrst frá því, í mars 2019, að Carmen hafi kært Jón Baldvin fyrir kynferðislega áreitni að heimili hans á Spáni þann 16. júní 2018, og að málið væri komið í hendur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sérstök síða fyrir #metoo sögur af Jóni Baldvin var stofnuð 2019 og þar voru birtar 23 nafnlausar sögur þolenda sem sögðu Jón Baldvin hafa beitt sig kynferðisofbeldi og/eða áreiti og ná frásagnirnar yfir nær 60 ára tímabil.

Sjö konur stigu fram undir nafni, þeirra á meðal Carmen. Hún var, ásamt móður sinni sem á þessum tíma var vinkona Jóns Baldvins og Bryndísar Schram eiginkonu hans, og stödd í veislu á heimili hjónanna í Andalúsíu þegar hún segir hann hafa káfað á rassinum á sér, og vitnaði móðir Carmenar um þetta.

Jón Baldvin hefur í gegn um tíðina afskrifað flestar ef ekki allar ásakanir á hendur sér um kynferðislegt ofbeldi og/eða áreitni þannig að þær eigi rætur að rekja til veikinda dóttur hans, Aldísar Schram. Skömmu eftir að greint var frá kæru Carmenar birtist Jón Baldvin í einkaviðtali í Silfrinu á RUV þar sem hann sagðist hafa það vottað frá annarri konu sem einnig var í veislunni að hún hefði ekki orðið vör við þessa snertingu og því sé frásögnin, að hans mati, ósönn. Þessi atburðarás hafi einfaldlega verið sett á svið til að koma á hann höggi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Arnar fær ekki starfið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?