Klukkan 02.07 varð jarðskjálfti, sem mældist 3,7, um 1,2 kílómetra SSV af Keili. Fannst hann víða á höfuðborgarsvæðinu. Klukkan 22.10 í gærkvöldi varð skjálfti, sem mældist 3,2, um 0,7 kílómetra SSV af Keili.
Frá því að skjálftahrina hófst við Keili þann 27. september hafa 7 skjálftar, sem mældust 3,0 eða stærri, mælst á svæðinu. Í gær mældust um 1.600 skjálftar á svæðinu að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni. Engin merki eru um gosóróa.