fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Ógnþrungið ástand í Blesugróf – „Hvar er réttur fólks til að vera óhult heima hjá sér?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 9. október 2021 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að vakna upp við að óboðinn gestur er í húsinu þínu er afskaplega erfið og hrikaleg reynsla. Um það geta hjón í Blesugróf í Reykjavík borið vitni því í lok ágúst vöknuðu þau við að maður hafði brotist inn til þeirra.

Klukkan var hálfsjö að morgni. Það var konan sem varð fyrst vör við þjófinn, hún vakti mann sinn sem spratt á fætur og rauk fram. Þá hafði þjófurinn dundað sér við að koma þýfinu í töskur sem hann hafði raðað í vinnubíl eiginmanns konunnar og var í þann mund að keyra með góssið í burtu. Hafði hann tekið alla hús- og bíllykla, sem og greiðslukort, lausafé og annað það sem honum fannst eftirsóknarvert.

Þegar þarna var komið við sögu tók við atburðarás sem var fyrst og fremst óhugnanleg þó finna mætti seinna meir spaugilega vinkla. DV ræddi við konuna sem þarna á í hlut en hjónin sem urðu fyrir innbrotinu eru í kringum sextugt.

„Maðurinn minn hljóp út á nærbuxunum og þá var innbrotsþjófurinn kominn undir stýri á vinnubílnum. Maðurinn minn opnaði bílinn og teygði sig í lyklana, en það var erfitt að ná taki á þeim því í farþegasætið hafði hann staflað töskum, fullum af þýfi. Strákurinn gaf allt í botn en fipaðist líklega því hann setti í fyrsta gír í stað bakkgírs. Hann dúndraði beint aftan á bílinn minn sem kastaðist á bílskúrshurðina. Til marks um höggið þá kom stór sprunga í framrúðuna þegar maðurinn minn kastaðist fram og skallaði hana.“

Maðurinn náði samt lyklunum en innbrotsþjófurinn var snöggur út úr bílnum og réðst á hann í kjölfarið. „Þegar maðurinn minn er að brölta á fætur, búinn að dragast með bílnum – og gleymum ekki að hann var bara á nærfötunum – kemur hinn aftan að honum, grípur hann hálstaki og tekst að fella hann niður á stéttina. Innbrotsþjófurinn sest ofan á hann og þrengir að öndunarfærum og reynir af öllum kröftum að spenna upp á honum hnefann og ná bíllyklinum. Hann sagði í sífellu: „Ég brýt á þér puttana!““

Þegar konan reyndi, af veikum mætti, að koma manni sínum til hjálpar hafði hún lítið í það að gera heldur hrökk nánast af eins og fluga. Hún féll framfyrir sig á stéttina og er hún enn með sjáanlega áverka fyrir neðan annað augað. Átökum árásarmannsins og eiginmannsins lauk með því að sá fyrrnefndi gafst að lokum upp á að ná aftur lyklunum að vinnubílnum og hélt burtu með aðra lykla hjónanna og greiðslukort þeirra, auk ýmiskonar annars þýfis.

Móðirin sökuð um að slá mann meðvitundarlausan með kylfu

Þetta alvarlega atvik er bara eitt af mörgum afbrotum sem framin hafa verið í hverfinu undanfarið. Mikil vandamál eru sögð tengjast einu tilteknu húsi við Blesugróf en íbúar í að minnsta kosti tveimur húsum í nálægum götum eru einnig sagðir vera til vandræða, stunda afbrot og valda miklu næturónæði.

Maðurinn sem réðst inn til hjónanna er ríflega hálfþrítugur. Hann er með hátt í 30 opin mál gegn sér í gangi, fyrst og fremst fyrir þjófnaðarbrot, en hefur afplánað nokkurra ára dóm fyrir mjög alvarlega hnífstunguárás. Er því ljóst að hann er hættulegur. Undanfarið er hann sagður hafa framið nokkur innbrot í öðrum hverfum í póstnúmeri 108. Hann hefur náðst víða á myndavélar þar sem hann kannar aðstæður kringum hús og bíla.

Móðir mannsins – en hann býr hjá henni  – hefur einnig þráfaldlega komist í kast við lögin. Nýlega greindi DV frá því að hún hefur verið ákærð fyrir líkamsárás gegn karlmanni vorið 2020, er hún sögð hafa slegið hann með kylfu eða viðlíka áhaldi með þeim afleiðingum að maðurinn missti meðvitund. Meint árás átti sér stað inni í húsi í Blesugróf.

„Í tuttugu ár hafa íbúar hverfisins þurft að búa við að þarna er stunduð fíkniefnaneysla með öllu og öllum sem því fylgir,“ segir einn íbúinn sem DV ræddi við. Ofbeldisfullt fólk í fíkniefnavanda er sagt safnast saman í húsinu með tilheyrandi hávaða og ógn fyrir nágranna. Þetta ástand er sagt hafa verið viðvarandi meira og minna frá aldamótum, með einhverjum hléum þó.

Sérsveitin er sögð hafa verið kölluð að húsinu fyrir stuttu síðan, lögregla margsinnis, og á síðustu tveimur vikum munu vera tvö dæmi um að sjúkrabílar hafi komið þangað. Viðmælandi DV fullyrðir einnig að þjófnaðarleiðangrar séu gerðir út frá húsinu og þarna safnist fólk saman í 2–3 bíla, síðla kvölds og sé með bakpoka hengda á sig, mögulega til að fylla á þýfi.

Lögreglan ráðalítil

En aftur að innbrotinu og líkamsárásinni á hjónin í Blesugróf. Er lögregla kom á vettvang var maðurinn á bak og burt en lögregla fann hann rúmum sólarhring síðar. Hann var tekinn til yfirheyrslu en sleppt að henni lokinni. Hvorki var krafist gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir honum né aflað húsleitarheimildar. Var því ekki hægt að gera meint þýfi upptækt og hjónin fengu hvorki greiðslukortin sín til baka né aðra lykla en þá sem eiginmaðurinn náði sjálfur úr höndum mannsins, eða heldur annað þýfi. Maðurinn neitaði að tjá sig í yfirheyrslum lögreglunnar.

Hjónin urðu steinhissa á þessum mildu viðbrögðum lögreglunnar. Lögin binda hins vegar hendur lögreglu. Án húsleitarheimildar er ekki hægt að fara inn í íbúðarhús og leita þýfis. Konan hefur fengið þau svör frá lögreglu að innbrot fólks sem stríðir við fíkniefnavanda séu of tíð til að lögreglan geti staðið í því að afla húsleitarheimildar í sérhverju tilviki. Spyrja má hvort umrætt atvik hafi ekki verið það alvarlegt að það hafi kallað á húsleitarheimild, enda um að ræða sérlega bíræfið innbrot auk líkamsárásar.

Konan segir að málið sé enn í rannsókn og meðal annars tók lögregla með sér hluti af heimilinu sem talið er líklegt að maðurinn hafi skilið fingraför sín eftir á. En rannsóknir mála af þessu tagi ganga hægt og ákærur koma seint eða ekki. Í millitíðinni brjóta sömu menn af sér áfram. Síbrotagæsla er úrræði sem slær stundum tímabundið á vandann og gefur íbúum a.m.k. „smá frí“. DV hefur ekki upplýsingar um hvort umræddur maður sé kominn í síbrotagæslu en hljótt mun hafa verið um hann í þessari viku, eftir afbrotahrinu mánuðina þar á undan.

Nýlega var haldinn íbúafundur í hverfinu þar sem ræddar voru leiðir til úrbóta vegna þessara aðstæðna – endalauss ónæðis og tíðra afbrota í hverfinu. Grunnvandinn liggur í útbreiddum fíkniefnavanda og tilheyrandi afbrotum þeirra sem þurfa afla sér fíkniefna, og sumir svífast einskis í þeim efnum. „Það sorglega er að rótin að þessu skuli vera fíkniefnaneysla sem forherðir fólk og gerir það sálarlaust,“ segir konan sem brotist var inn hjá.

„Af hverju bregst ákæruvaldið ekki hraðar við? Hvers vegna er tilfinning hins almennings orðin sú að mannrettindi afbrotafólks séu sterkari en hins „venjulega manns“? Hvar er réttur fólks til að vera óhult heima hjá sér? Hvers vegna eru engin úrræði fyrir íbúa sem búa við langvarandi „ofbeldi“. Öryggisleysi vegna svona ástands er líka ein tegund af ofbeldi. Hvers vegna fær lögreglan ekki meira fjármagn og mannafla og rýmri heimildir? Gæti Reykjavíkurborg gert eitthvað sem hún er ekki að gera núna?“ segir hún ennfremur.

Tók fatalit, fúgu og nammi

Það var nefnt hér í upphafi að innbrotið í Blesugróf hafi öðrum þræði verið spaugilegt þó að umfram allt sé atburðurinn óhugnanlegur. Eigandinn sér, þrátt fyrir allt, broslega hlið á því þýfi sem þjófurinn hafði með sér en það var, auk greiðslukorta, peninga og lykla, meðal annars eftirfarandi:

1 glas af fatalit – svörtum

1 box af einnota hönskum

Nokia-sími sem er svo gamall að hann ætti heima á safni.

3 eldhúshnífar („Það fannst mér óhuggulegt“)

Ullarundirföt (peysa) sem hann fiskaði upp úr óhreina tauinu („Jamm, hann gramsaði í því“).

Poki með hvítri fúgu til að flísaleggja, sem geymd var á hillu í þvottahúsinu

Sælgæti („laugardagsnammið“)

„Ég veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta,“ segir konan um þetta.

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Eiga ekki orð yfir „málaliða“ Pútíns – Hvað eru þeir að gera?

Eiga ekki orð yfir „málaliða“ Pútíns – Hvað eru þeir að gera?
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við