Atvik sem varð á æfingu Sinfóníuhljómsveitar Íslands í hljómsveitargryfju undir stóra sviðinu í Eldborgarsal Hörpu, þann 22. maí 2013, hefur dregið dilk á eftir sér. Í dag kvað Landsréttur upp dóm í málinu en dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í vor hafði verið áfrýjað.
Maðurinn starfaði sem sviðsstjóri fyrir sinfóníuna. Umræddan dag var hljómsveitin við æfingar á undirleik við balletverk og var þetta fyrsta æfing hennar í hljómsveitargryfjunni við þetta verk. Slysið varð þegar maðurinn reyndu að stíga upp á pall í hljómsveitargryfju í myrkvuðum Eldborgarsalnum til að koma boðum til ljósamanns um að kveikja ljós. Rann hann á efri brún pallsins og rak hné í hana. Hætta er talin hafa skapast í hljómsveitargryfjunni vegna ónógrar lýsingar og skyndilegrar myrkvunar. Slysið olli manninum varanlegum líkamlegum afleiðingum og er ekki deilt um það.
Um málsástæður og rök mannsins í málinu segir svo í dómi Héraðsdóms frá því í vor:
„Stefnandi byggir kröfu sína á því að vinnuveitandi hans, stefndi Sinfónían, annars vegar og húseigandi, stefndi Harpan, beri ábyrgð á tjóni hans samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Krafan gegn stefnda Hörpunni er á því byggð að fyrirkomulagi búnaðar í Eldborgarsal Hörpu og hljómsveitargryfju hafi verið ábótavant, vanrækt hafi verið að leggja mat á áhættuþætti samfara notkun hljómsveitargryfju og gera öryggisáætlun í því sambandi, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur settar samkvæmt þeim. Einnig er á því byggt að stefndi Harpan hafi vanrækt skyldur sínar sem atvinnurekandi á vinnustað þar sem fleiri en einn atvinnurekandi eru með starfsemi, sbr. 17. gr. laga nr. 46/1980. Í þessu sambandi er bent á ónóga lýsingu í hljómsveitargryfju og þá staðreynd að engir glóborðar hafi verið notaðir til að bregðast við lítilli lýsingu. Því er mótmælt að kveikt hafi verið á bláum ljósum þegar slysið varð. Þá er því einnig mótmælt að tröppur hafi verið fyrir hendi þannig að stefnandi hafi átt kost á öruggari leið upp á áðurlýstan pall. Vísað er til þeirrar niðurstöðu í skýrslu Vinnueftirlitsins að vanrækt hafi verið að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði varðandi þennan verkþátt, sbr. VIII. kafla reglugerðar nr. 920/2006 og það að engin vinnutilhögun hafi legið fyrir varðandi verk sem þetta þannig að sem minnst hætta stafaði af.
Að því er varðar stefnda Sinfóníuna byggir stefnandi á því að um sé að ræða vinnuveitanda stefnanda sem borið hafi að tryggja fyllsta öryggi starfsmanns síns, meðal annars þannig að brugðist væri við vanrækslu stefnda Hörpunnar í því efni, sbr. m.a. 42. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi vísar til þess að þessi stefndi hafi ekki gripið til neinna sérstakra ráðstafana í þessu efni og vísi alfarið til ábyrgðar stefnda Hörpunnar. Þá fari á milli mála hvort fyrir hendi hafi verið öryggisfulltrúi og öryggisnefnd af hálfu stefnda Sinfóníunnar. Samhæfing starfsmanna, svo sem þeirra sem komu að ljósamálum og höfðu umsjón með sviði, hafi verið engin, og hafi þessi stefndi þar af leiðandi einnig brotið gegn áðurnefndri 17. gr. laga nr. 46/1980.“
Héraðsdómur viðurkenndi skaðabótaábyrgð Hörpu í málinu vegna líkamstjóns mannsins en hafnaði því að Sinfónínuhljómsveit Íslands bæri ábyrgð í málinu. Landsréttur telur hins vegar að Sinfóníuhljómsveitin beri líka sök og segir að aðilarnir beri báðir ábyrgð á líkamstjóni mannsins og séu skaðabótaskyldir.
Dóm Landsréttar og héraðsdóms má lesa hér