fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Íslenskur pókerspilari í Pandóruskjölunum tengdur við umdeilt fyrirtæki – „Af hverju að vera borga skatta á Íslandi þegar þú þarft þess ekki?“ 

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 8. október 2021 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenski pókerspilarinn Aðalsteinn Pétur Karlsson er í Pandóruskjölunum svonefndu þar sem hann er tengdur við fyrirtækið umdeilda Orangewebsite. Fyrirtækið er vefhýsingaraðili sem býður notendum sínum upp á hýsingu án þess að þeir þurfi að gefa upp mikið af persónuupplýsingum og án þess að efnið sem þeir birta á vefsíðum sínum sé ritskoðað. Þetta kemur fram í Stundinni í dag þar sem má finna ítarlegar upplýsingar um þá Íslendinga sem bregður fyrir í Pandóruskjölunum – afrakstur eins af stærri gagnalekum sögunnar.

Fyrirtækið er sagt staðsett á Klapparstíg, en áður hefur það verið tengt við Álfhólsveg í Kópavogi. Enginn raunveruleg starfsemi fer þó fram á Klapparstígnum.

Í Pandóruskjölunum kemur fram að Aðalsteinn Pétur sé einn af tveimur lykilmönnum fyrirtækisins ásamt Finnanum Henri Kalle Johannes Vilmi.

Nýnasistar og hryðjuverkasamtök

Orangewebsite nýtur töluverðra vinsælda einkum meðal þeirra sem vilja koma upp vefsíðum sem aðrir hýsingaraðilar myndu að líkindum ritskoða, sem og vegna þess að þeir bjóða upp á nafnleynd. Þetta hefur orðið til þess að fyrirtækið hefur fengið yfir sig gagnýni fyrir að hýsa vefsíður sem dreifa falsfréttum, netníði,  sölu fíkniefna, starfrækja svikastarfsemi af ýmsu dagi, síður sem snúast um fjárkúgun, klám, áróður af ýmsu tagi og jafnvel vefsíður í eigu hryðjuverkasamtaka.

Árið 2014 var greint frá því að vefsíða hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins væri hýst á Íslandi þar til Advania lét loka henni. Lénið var hýst af Thor Data Center í eigu Advania en ekki var um bein viðskipti Advania að ræða heldur fóru viðskiptin í gegnum OrangeWebsite.

Árið 2017 var greint frá því að Orangewebsite væru hýsingaraðili nýnasistasíðunnar Daily Stormer. En síðan hafði áður reynt, án árangurs að finna sér hýsingu í Rússlandi og Albaníu og þurfti í kjölfarið að notast við myrka vefinn.

Einstæð móðir hóf herferð

Orangewebsite hýsti einnig vefsíðuna CheaterReport.com sem á langa sögu um að birta nafnlausar færslur með ærumeiðandi ummælum um nafngreinda einstaklinga sem eru sagðir hafa stundað framhjáhald í parasamböndum. Þeir einstaklingar sem voru nafngreindir á síðunni voru svo rukkaðir um fleiri tugi þúsunda ef þeir vildu losna við nöfn sín af síðunni.  Ein einstæð móðir sem var nafngreind á síðunni hóf árið 2015 herferð á netinu til að reyna að stöðva síðuna og greindi frá samskiptum sínum við Orangewebsite, þá sérstaklega við Aðalstein sem hún sagði hafa svarað sér með dónaskap og hroka áður en hann blokkaði alla tölvupósta frá henni. Var hún að reyna að finna manneskjuna að baki CheaterReport en segir að Aðalsteinn hafi svarað henni með því að eigandi síðunnar væri „draugur“ og það væri ekki hægt að hafa upp á honum.

Segist hafa ekkert að fela

Stundin hafði samband við Aðalstein sem býr í Taílandi. Hann sagðist hafa ekkert að fela og neitaði að vera stjórnarmaður í fyrirtækinu. „Ég hef verið tengiliður, þá sérstaklega innanlands, varðandi dómsmál og annað slíkt. Ég er starfsmaður. Ég vinn sem sjálfstæður verktaki.”

Hann segir ástæðu þess að leynd ríkir um stjórnendur fyrirtækisins og ástæðu þess að það sé rekið af aflandsfélagi vera skattalega. „Af hverju að vera borga skatta á Íslandi þegar þú þarft þess ekki?“

Varðandi efni á vefsíðum sem fyrirtækið hýsir segir Aðalsteinn: „Ég get ekki látið mína persónulegu skoðun stýra hvað er verið að hýsa. Við förum bara eftir því sem lögin á Íslandi segja.“ Síðan bætti hann við: „Ef að Ísland er að segja að þetta sé í lagi, þá er þetta í lagi.“

Hann tók þó fram að fyrirtækið tæki hart á hryðjuverkatengduefni sem og barnaklámi.

Áður hefur fyrirtækið gefið þær upplýsingar varðandi vefsíður á borð við nýnasistaáróður að það væri erfitt fyrir fyrirtæki sem gerir sig út fyrir að styðja tjáningarfrelsi að fara að ritskoða slíkt efni. Hins vegar hefur síðan einnig gefið sig út fyrir að hundsa allar kröfur um að efni sé fjarlægt á grundvelli bandarísku höfundarréttarlaganna DMCA eða Digital Millennium Copyright Act, en almennt verða flestir vefsíðueigendur og hýsingaraðilar við slíkum kröfum. Tildæmis er það á grundvelli þeirrar löggjafar sem Google fjarlægir leitarniðurstöður sem brjóta gegn löggjöfinni ef krafa um slíkt berst þeim.

Orangewebsite var stofnað í Reykjavík árið 2009 og virðist Aðalsteinn hafa haft aðkomu að fyrirtækinu minnst síðan 2014 og meðal annars sinnt samskiptum við viðskiptavini sem og skrifað færslur á vefsíðu fyrirtækisins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum