Sigurður Þórðarson, sem er betur þekktur undir viðurnefinu Siggi hakkari, var dæmdur í síbrotagæslu í þarsíðustu viku. Sigurður situr nú á Litla hrauni. Stundin greinir frá en lögmaður Sigurðar, Húnbogi J. Andersen, staðfestir þetta í frétt miðilsins.
Í umfjölluninni kemur fram að Sigurður hafði verið handtekinn þann 23. september síðastliðinn. Hann hafi í kjölfarið verið dæmdur í síbrotagæslu af Héraðsdómi Reykjavíkur, að ósk Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og sendur strax daginn eftir á Litla Hraun.
Ekki er algengt að síbrotagæslu sé beitt en samkvæmt lögum er heimilt að úrskurða sakborning sem er til rannsóknar í slíka gæslu ef ætla má að hann muni halda áfram að fremja lögbrot á meðan rannsókn stendur.
Heimildir Stundarinnar herma að ástæðan fyrir því að Sigurður var dæmdur í síbrotagæslu sé fjöldi fjársvikamála og tilrauna til fjársvika sem eru til rannsóknar hjá lögreglu. DV fjallaði um slóð slíka tilrauna fyrr í sumar.
Sigurður hefur notast við fjölda fyrirtækja og félagasamtaka til að svíkja tugi milljóna króna af einstaklingum og fyrirtækjum á undanförnum árum. Þá hefur hann áður verið dæmdur fyrir fjársvik fyrir tugi milljóna.