Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Ólöf og stéttarfélag hennar segi að Icelandair hafi orðið margsaga um ástæður uppsagnarinnar. Fyrst hafi trúnaðarbresti verið borið við, síðan samstarfsörðugleikum og einnig hafi því verið haldið fram að félagið hafi ekki vitað að hún var trúnaðarmaður starfsfólks.
Haft er eftir Ólöfu að ósætti hafi komið upp, þar á meðal vegna kröfu yfirmanna um aukin verkefni hlaðmanna. Hún nefndi einnig breytingar á vinnutíma og álag tengt flutningum á fötluðu fólki.
„Þetta var mikið sjokk. Ég hef ekki verið rekin áður,“ sagði hún.
Hún sagði að hlaðmönnum á Reykjavíkurflugvelli hafi fækkað ört á síðari árum og vinnuaðstæður verkafólks hafi orðið sífellt verri að sögn samstarfsmanna hennar.
Efling segir að málið opni nýjan og dimman kafla í sögu atvinnulífs á Íslandi. „Sérstaklega í ljósi þess að uppsögnin og atlagan að verkafólki á plani er studd með ráðum og dáð af Samtökum atvinnulífsins,“ er haft eftir Viðari Þorsteinssyni hjá Eflingu. Með þessu vísar hann í að Samtök atvinnulífsins hafi á fundum stutt dyggilega við bakið á Icelandair í tengslum við uppsögn Ólafar. Hafi framkvæmdastjóri samtakanna lýst yfir stuðningi við uppsögnina.