Landsréttur snéri í dag við sýknudóm héraðsdóms yfir manni á sjötugsaldri sem ákærður var fyrir manndráp eða sérstaklega hættulega líkamsárás með því að stinga konu með 7 cm löngum hníf.
Lögregla var sunnudagskvöldið 4. nóvember 2018 kölluð til að heimili í Þorlákshöfn og tók á móti henni kona með mikla blæðingu úr sári neðarlega á kvið. Lögreglan brást við með því að setja þrýsting á blæðinguna. Maðurinn sem hringdi sagði að hún hefði veitt sér sjálfri áverkana. Konan var klædd í brjóstahaldara en ber að neðan, að því er fram kemur í dómnum. Töluvert blóð var á vettvangi og á svefnsófanum þar sem konan lá.
Segir í dómi Héraðsdóms að enginn hnífur eða annað áhald sem hefði getað valdið skurðinum hafi fundist, en þó hafi fundist hnífur við vask í íbúðinni sem bersýnilega hafði nýlega verið þrifinn. Þá fannst alblóðugt viskastykki innst inni í neðri eldhússkáp.
Konan hélt því fram við lögreglu að maðurinn hefði stungið sig. Maðurinn, eins og áður sagði, hélt því staðfastlega fram að hún hefði veitt sér sjálf áverkana.
Í niðurstöðu kafla dóms héraðsdóms segir:
Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist og þá ber að hafa í huga að bæði voru undir áhrifum áfengis, sérstaklega brotaþoli. Þá verður ekki fram hjá því litið að brotaþoli skoraðist undan skýrslugjöf fyrir dómi og þá getur dómkvaddur matsmaður ekki útiloka að að um sjálfsáverka sé að ræða, en skortur á ítarlegri lýsingu á áverka, vöntun á ljósmyndum af honum og það að enginn réttarmeinafræðingur hafi skoðað brotaþola skömmu eftir atvikið, takmarki mjög að hans mati réttarmeinafræðilegt mat. Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að telja að það mikill vafi leiki á sekt ákærða að ekki verði hjá því komist að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Þá sögðu sérfræðivitni sem komu fyrir Héraðsdóm að staðsetning áverkana væri óvenjuleg fyrir sjálfsáverka. Þá leggur Landsréttur áherslu á það í sinni niðurstöðu að ekkert tól hafi fundist nálægt konunni, né blóðslóð frá konunni og að stað þar sem hún hefði getað falið slíkt áhald.
Segir loks í dómi Landsréttar: „Að öllu framangreindu virtu verður talið að sannað sé svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi stungið brotaþola með hnífi 4. nóvember 2018.“
Skal maðurinn sæta fimm ára fangelsisdóms, greiða sakarkostnað og laun verjanda síns, samtals um 3,4 milljónir króna.