Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Baldvin Hermannssyni, forstjóra félagsins, að eftirspurn eftir fragtflugi hafi stóraukist samhliða samdrætti í farþegaflugi vegna heimsfaraldursins. Eftirspurnin hafi ekki síst aukist í flugi langdrægra breiðþotna á milli heimsálfa og því vanti meiri flutningsgetu inn í kerfið.
„Þetta hefur verið rússíbanareið síðan faraldurinn skall á. Þá vorum við að fljúga 15 vélum og vorum með miklar áætlanir um áframhaldandi nýliðun og stækkun á flotanum. Það fór allt í vaskinn í faraldrinum. Undanfarið höfum við þó byggt upp reksturinn og erum nú eingöngu með fraktvélar, alls níu 747 Boeing-fraktvélar. Eftirspurnin hefur stöðugt aukist síðustu tólf mánuði. Áður fyrr komu 65-70% af okkar tekjum úr farþegaflugi,“ er haft eftir honum.
Atlanta mun nota tvær farþegaþotur í fragtflug en þær hafa staðið óhreyfðar síðan faraldurinn skall á. Önnur þeirra hóf sig til flugs í fyrradag.
Í síðustu viku skrifaði félagið undir langtímaleigu á tveimur Boeing 747-fraktvélum og er reiknað með að þær verði teknar í notkun í janúar og febrúar. Verða fraktvélarnar þá orðnar þrettán. Baldin sagði að þess utan væri verið að ljúka samningum um rekstur á þremur Airbus 340-þotum.