fbpx
Mánudagur 28.október 2024
Fréttir

Íris í útgöngubanninu í Washingtonborg – „Búið að vera frekar klikkað, þetta ár“

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 7. janúar 2021 21:00

Íris Björk Björnsdóttir á góðri stundu í Washingtonborg. mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íris Björk Björnsdóttir, vöruhönnuður og förðunarfræðingur, segir íbúa í Washingtonborg hafa áhyggjur af ástandinu og vera í áfalli yfir atburðum dagsins í gær. Íris hefur búið þar í á annað ár og starfar sem förðunarfræðingur á einkarekinni húð- og lýtalækningastofu í borginni.

Íris bjó áður í Nantes í Frakklandi þar sem hún nam vöruhönnun í fimm ár. Hún og maðurinn hennar, Antoine Sauvaget, voru að undirbúa flutning heim til Íslands þegar Antoine bauðst óvænt starf í Washingtonborg. Þau stukku á tækifærið. Nokkrum mánuðum síðar voru þau bæði komin með atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og nýtt líf tekið við í höfuðborg Bandaríkjanna. Antoine er fjármálastjóri útibús franska byggingafyrirtækisins Technopref í Bandaríkjunum.

Íris Björk Björnsdóttir hefur búið í Washington í á annað ár. mynd/aðsend

Ófriðartímar í Washington

Óhætt er að segja að Íris og Antoine hafi flutt til Washingtonborgar á einkennilegum tímum. Forsetatíð Donalds Trumps hefur markast af ókyrrð í bandarísku þjóðlífi og mótmæli við heimili hans og skrifstofur í Hvíta húsinu við Pennsylvania Avenue í borginni daglegt brauð. Þau mótmæli náðu svo vissu hámarki síðasta sumar þegar borgin var svo að segja undirlögð af mótmælum kenndum við hreyfinguna Black Lives Matter.

Í gær upplifði Íris svo aftur heimsfréttirnar á eigin skinni þegar hún fékk skilaboð í símann sinn um að útgöngubann yrði sett á klukkan 18:00 þann sama dag. Mótmælendur höfðu þá safnast saman utan við þinghús Bandaríkjanna í borginni og hluti þeirra brotið sér leið inn í húsið.

Viðvörunin á síma Írisar í gær.

Donald Trump boðaði til mótmælanna á Twitter fyrir nokkrum dögum sem hófust í gærmorgun við Hvíta húsið þar sem Trump ávarpaði stuðningsmenn sína. Að ávarpinu loknu þrömmuðu mótmælendur að þinghúsinu þar sem þeir loks ruddu sér leið fram hjá girðingu lögreglu. Um klukkustund síðar birtust myndir af mótmælendum í stólum Nancy Pelosi, forseta neðri deildarinnar, og Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna í þinghúsinu. Miklar skemmdir voru unnar á húsinu og munum stolið. Fjórir létust í óeirðunum.

Íris og maður hennar Antoine. mynd/aðsend

Í samtali við DV sagðist Íris ekki hafa orðið vör við ofbeldisöldu gærdagsins sjálf, enda óeirðirnar að mestu við þinghúsið. Það sé ólíkt því sem hún upplifði í Black Lives Matter mótmælunum, enda var þá borgin öll undirlögð. Ákveðið hafi verið fyrirfram að hún og kollegar hennar myndu vinna að heiman í fyrradag og í gær vegna mótmælanna.

Vinnur nálægt Hvíta húsinu

„Skrifstofan okkar er svo nálægt Hvíta húsinu svo að læknarnir þar voru búnir að taka ákvörðun um að við myndum vinna heima þessa daga. Við afbókuðum alla okkar viðskiptavini og gerðum aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna mótmælanna,“ sagði Íris. „Svo kom þessi tilkynning um að útgöngubann færi í gildi í borginni klukkan 18:00 og yrði í gildi til 06:00.“

Vegna fjölda fyrirspurna birti Íris kort af borginni á Instagram sem sýndi að hún var í öruggu skjóli heima hjá sér, fjarri hamaganginum í óeirðaseggjum Trumps við þinghúsið. „Við búum í sæmilegri fjarlægð frá Hvíta húsinu og enn fjær þinghúsinu, svo þau snertu okkur minna en BLM mótmælin,“ útskýrir Íris. Þá segir Íris að mótmælendur sem mótmæltu í gær séu að mestu fólk sem kom til borgarinnar víðs vegar að í þeim tilgangi einum að mótmæla. Það fólk þekki ef til vill verr til borgarinnar og hópist því frekar að frægum kennileitum hennar. Black Lives Matter mótmælin voru hins vegar mótmæli íbúa borgarinnar og annarra borga um öll Bandaríkin.

„Eftir kosningarnar í nóvember vöknuðum við við flaut frá bílum sem keyrðu niður 16th Street. Það gekk á nánast allan daginn en það var bara hamingja í fólki með úrslit kosninganna,“ segir hún. Íris og Antoine búa við 16th Street en gatan þverar borgina og endar svo við norðurhlið Hvíta hússins. Neðsta hluta götunnar hafa borgaryfirvöld nú lokað fyrir akandi umferð og „BLACK LIVES MATTER,“ málað yfir götuna. „Þegar Trump mótmælendur hafa verið að koma til D.C. þá virðist sem þetta sé mjög skipulögð mótmæli þannig að við höfum fengið frekar gott „heads up,“ svo við höfum getað haldið okkur frá þeim.“

Black Lives Matter Plaza í Washingtonborg.

Bindur vonir við friðsælli tíma framundan

Þó mótmælin sem slík hafi ekki fengið á Írisi er ljóst að þau hafa áhrif á hennar daglega líf. „Fólk hér hefur áhyggjur og það er „sjokkerað“,“ segir Íris. „Það er svo líka sláandi hvað viðbrögð yfirvalda hvað öryggisgæslu og framkomu við mótmælendur varðar hafa verið ólík þeim sem við sáum til dæmis í BLM mótmælunum. Það vekur mann mjög til umhugsunar og um þetta er mikið rætt á meðal okkar og okkar vina um þessar mundir.“ Íris er ekki ein um að draga þá ályktun, en á það var strax bent í gær, til dæmis af Anderson Cooper þáttastjórnanda á CNN, að niðurstaða óeirðanna hefði verið allt önnur ef óeirðaseggir hefðu verið svartir eða múslimar.

Íris segist nú vonast til þess að næstu 13 dagar verði friðsælir, en þá tekur Joe Biden við stjórnartaumunum í Hvíta húsinu. „Maður vonar að það springi ekki allt þegar kemur að innsetningarathöfninni. Vonandi fer þetta að róast, enda búið að vera frekar klikkað, þetta síðasta ár,“ segir Íris að lokum.

Íris og maður hennar Antoine við þinghús Bandaríkjanna sem í gær var undirlagt óeirðum. mynd/aðsend
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnar Erling varð fyrir hnífstunguárás – „Mun sofa í bílageymslum frekar en að hætta lífi mínu“

Ragnar Erling varð fyrir hnífstunguárás – „Mun sofa í bílageymslum frekar en að hætta lífi mínu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sverrir Einar kærir lögreglumann fyrir rangar sakargiftir – Sveinn Andri telur hann hafa verið lagðan í einelti

Sverrir Einar kærir lögreglumann fyrir rangar sakargiftir – Sveinn Andri telur hann hafa verið lagðan í einelti
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Orlofsgreiðslur Dags draga dilk á eftir sér fyrir borgina – Sólveig Anna greinir frá fullnaðarsigri

Orlofsgreiðslur Dags draga dilk á eftir sér fyrir borgina – Sólveig Anna greinir frá fullnaðarsigri
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ómyrkur í máli: Dauðsfallið um síðustu helgi aðeins toppurinn á ísjakanum

Guðmundur Ingi ómyrkur í máli: Dauðsfallið um síðustu helgi aðeins toppurinn á ísjakanum