Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að þegar umbrotin við Grindavík hófust hafi komið í ljós að þar hafði jörð risið um tvo sentimetra á fimm sólarhringum. Óvissustigi almannavarna var lýst yfir og sé það enn í gildi.
Morgunblaðið hefur eftir Kristínu Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, að nú sé meiri óróleiki á Reykjanesskaga en áður hafi sést. Virknin sé að mestu frá Reykjanestá að Kleifarvatni. Breytingar séu á virkninni á milli vikna en þegar heildarmyndin sé skoðuð sjáist að skjálftavirkni á svæðinu hafi ekki mælst ákafari síðan stafrænar mælingar hófust 1991.
Á síðustu mánuðum hafa órói og upptök skjálfta færst lengra til austurs, í átt að Krýsuvík. Má þar nefna að skjálfti upp á 5,6, sem varð 20. október, átti upptök sín ekki langt frá Djúpavatni.
Haft er eftir Kristínu að eðlilegt sé að setja atburðarásina á Reykjanesskaga síðasta árið í stórt samhengi og draga ályktanir. Gera megi ráð fyrir að spenna sé að safnast í jörðu milli Kleifarvatns og Bláfjalla og að ekki losni um hana nema í stórum skjálfta.