Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Jóni Guðbjartssyni, stjórnarformanni Kampa, að endurskoðandi sé að fara yfir málið og vonandi skýrist staðan betur á næstunni. Hann sagði einnig að fjárhagsstaðan væri allt önnur en fram hafi komið í bókhaldi og ársreikningum félagsins og sé unnið hörðum höndum að því að komast að ástæðunni fyrir því.
Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir að fjárhagsstaða fyrirtækisins sé miklu verri en upphaflega var talið og hlaupi fjárhæðirnar á hundruðum milljóna króna og hafi miklum skuldum verið safnað.
Jón staðfesti að ársreikningar fyrirtækisins gefi ekki rétta mynd af stöðu þess og sé ákveðnum stjórnanda hjá fyrirtækinu um að kenna. „Annar verklegra stjórnenda fyrirtækisins gerði skandal sem við vissum ekki um. Ég ætla ekki nánar út í það. Nú er farin af stað vinna við það að bjarga fyrirtækinu,“ er haft eftir honum.
42 starfa hjá fyrirtækinu. Jón sagði að viðbrögð lánardrottna hafi verið jákvæð og endurskoðendur muni hjálpa til við að leiðrétta bókhaldið sem hafi verið rangt í nokkur ár. „Það hefur eitthvað verið bogið við bókhaldið hjá okkur í áravís. Bókhaldið hjá okkur hefur byggst á skáldskap í allt of langan tíma. Nú verður það skoðað nánar til að fá endanlega botn í þetta mál,“ sagði hann.