Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. „Á síðasta ári var áherslan lögð á að koma fólki í þjónustuna og tryggja framfærsluna en nú erum við á fullu við að skipuleggja þessi úrræði og hjálpa fólki við að halda virkni,“ hefur blaðið eftir Unni.
Meðal átaksverkefnanna eru svonefnt Starf með styrk þar sem atvinnurekendum er auðveldað að ráða starfsfólk með því að bjóða þeim upp á ráðningarstyrki. Sagði Unnur að mikill áhugi væri á þessu úrræði og hafi samningum um það fjölgað.
Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa kallað eftir því að atvinnuleysisbótatímabilið verði lengt en það er nú 30 mánuðir. Margir þeirra sem missa bótarétt sinn eiga þann eina kost í stöðunni að sækja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í síðasta mánuði lauk bótarétti 87 manns.
Áætlað er að útgjöld til fjárhagsaðstoðar í tíu stærstu sveitarfélögunum geti hækkað um tæplega 58% á árinu og orðið um 6,7 milljarðar. Það er 2,4 milljarða króna aukning á milli ára.