Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Lyfjastofnun hafi borist 61 tilkynning um hugsanlegar aukaverkanir, þar af átta alvarlegar. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið.
Hún sagði að allt fólkið hafi verið bólusett 29. eða 30. desember. „Tímalengd frá bólusetningu og fram að andláti er töluvert mismunandi hjá þessum einstaklingum. Eins og tölfræðin er þá er almennt talað um að það séu 18 andlát á viku á dvalarheimilum. Þetta er kannski frekar tengt þeirri tölfræði en bólusetningunni. Þetta er líka að raungerast í löndunum í kringum okkur. Noregur er búinn að tilkynna um 23 andlát hjá öldruðum einstaklingum eftir bólusetningu,“ er haft eftir henni.
Embætti landlæknis rannsakar þær aukaverkanir sem tilkynntar hafa verið.