Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni þess að tryggingafélagið Sjóvá hefur tilkynnt um áform þess efnis að greiða hluthöfum 2,5 milljarða króna í tengslum við hlutafjárlækkun félagsins. „Þessi fjárhæð kemur til viðbótar við 2,65 milljarða króna arðgreiðslu ársins. Samtals ætlar Sjóvá því að greiða hluthöfum rúmlega 5 milljarða króna,“ segir í tilkynningu FÍB, sem vill að arðinum verði skilað til tryggingataka.
FÍB segir Sjóvá liggja á gífurlegum fjármunum eftir að hafa okrað á viðskiptavinum sínum í áratugi. Hluthafar Sjóvá hafi ekki aflað þessa arðs sem greiða eigi út. Skorar FÍB á stjórn Sjóvá láta hlutafjárlækkunina ganga til viðskiptavina. Í tilkynningunni segir:
„Líkt og öll hin tryggingafélögin hefur Sjóvá okrað á tryggingatökum áratugum saman. Þannig hefur Sjóvá byggt upp sterka eiginfjárstöðu og um leið lagt „afganginn“ í bótasjóði undir því yfirskini að þurfa að eiga fyrir tjónum. Evrópusambandið breytti þessu fyrirkomulagi fyrir löngu með Solvency 2 reglugerðinni. Samkvæmt henni er eigin fé tryggingafélaganna ætlað að mæta áhættu vegna tryggingastarfseminnar, ekki bótasjóðum (sem eru kallaðir tjónaskuld). Eigið fé Sjóvá er næstum helmgingi hærra en Solvency 2 krefst. Nú ætlar Sjóvá að afhenda hluthöfum hluta af þessum umframsjóði – og sitja áfram sem fastast á bótasjóðum sínum. Það kallar Sjóvá í tilkynningu að „laga fjármagnsskipan félagsins.“ Félagið liggur einfaldlega á meiri peningum en þörf er fyrir vegna þess að það innheimtir óeðlilega há iðgjöld.
Hluthafar Sjóvá hafa ekki aflað þessara fjármuna. Þeir eiga engan rétt á þeim. FÍB skorar á stjórn Sjóvá að leggja til við hluthafafund félagsins að hlutafjárlækkunin gangi til viðskiptavina.“
Hluthafafundur Sjóvá verður haldinn þann 19. október næstkomandi en tilkynningu um hann má lesa hér.