fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Yfirlýsing DV: Beittu barni til að stöðva frétt

Erla Hlynsdóttir, Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 17. september 2021 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ákveðin tímamót urðu á fjölmiðlaferli okkar beggja í liðinni viku þegar sett var af stað herferð til að reyna að þagga niður umfjöllun DV um Jakob Frímann Magnússon, oddvita Flokks fólksins. Hér skal tekið fram að samtals höfum við um aldarfjórðungs reynslu af blaðamennsku á hinum ýmsu fjölmiðlum en það sem við gengum í gegnum í síðustu viku var fordæmalaust með öllu.

Síðustu daga höfum við íhugað málið og komumst við bæði að þeirri niðurstöðu að við gætum ekki látið málið kyrrt liggja. Því miður færist það sífellt í vöxt að blaðamenn verði fyrir grófu áreiti við sín störf. Við teljum því mikilvægt að stíga niður fæti og það verði öllum ljóst sem að ætla sér að beita slíkum aðferðum að þeir geta ekki gert það í skjóli skugga heldur þurfa að sætta sig við það að slíkt verði hér eftir dregið fram í dagsljósið. 

Málið hófst þann 6. september síðastliðinn og töldum við bæði að nokkuð einföld frétt væri í smíðum. Erla var með öll gögn í höndunum um hvernig utanríkisráðuneytið afturkallaði svokallað liprunarbréf sem gefið var út samkvæmt beiðni Jakobs Frímanns til að greiða för barns til föður síns sem búsettur er erlendis og er náinn vinur frambjóðandans. Beiðni Jakob Frímanns innihélt margskonar rangfærslur, meðal annars um meint ættartengsl Jakobs við barnið, andlegt ástand þess sem og að ferðalagið væri með samþykki móður.

Eftir að hafa afturkallað bréfið baðst utanríkisráðuneytið afsökunar á málsferðinni og var sú afsökunarbeiðni meira að segja ítrekuð síðar.

Það er ekkert launungarmál að gögnin komust í hendur DV af því að fjölskyldu móður barnsins ofbauð sú tilhugsun að Jakob Frímann væri að sækjast eftir þingsæti með Flokki fólksins. Að þeirra mati hafði hann misnotað ímynd sína og tengsl til að gera vini sínum persónulegan greiða og þeim hryllti við tilhugsuninni um spottakippingarnar sem gætu hafist ef Jakob Frímann kæmist á þing. Þeim fannst því beinlínis samfélagsleg skylda þeirra að vekja athygli á málinu.

Það gerist ekki nægilega oft að öll gögn séu til staðar í slíkum málum og því taldi Erla að framundan væri stutt símtal við Jakob Frímann þar sem hann myndi svara fyrir aðkomu sína að málinu og í kjölfarið yrði fréttin birt. 

Erla reiknaði með því að þegar hún hringdi í Jakob Frímann myndi einfaldlega segja að hann hefði verið helst til fljótur á sér, ekki hafa verið með allar staðreyndir málsins á hreinu og bæðist velvirðingar á mistökum sínum. En annað kom á daginn – í fyrsta símtali Erlu við Jakob Frímann sagðist hann vera upptekinn á fundi en vildi gjarnan vita erindið. Erla kvaðst myndi hringja aftur eftir klukkustund. 

Nokkrum mínútum síðar byrjuðu símar okkar beggja að hringja frá aðilum sem nátengdir eru Jakobi Frímanni. Í kjölfarið hófst tveggja sólarhringa áreitni í garð okkar beggja, Björns en þó aðallega Erlu, þar sem markmiðið var að koma í veg fyrir að þessi frétt myndi nokkurn tímann birtast. Okkur voru gerðar upp annarlegar hvatir, reynt að láta okkur fá samviskubit yfir því að vera að eyðileggja pólitískan feril Jakobs og ekki síður þau mikilvægu málefni sem hann væri að berjast fyrir. Við vorum beinlínis beitt andlegu ofbeldi og okkur hótað því að birting fréttarinnar myndi hafa afleiðingar fyrir okkur persónulega.

Á bak við tjöldin fór síðan önnur herferð í gang þar sem æðstu stjórnendur útgáfufyrirtækisins voru beittir bæði blekkingum og þrýstingi til að koma í veg fyrir birtingu. 

Alvarlegast af öllu var sú fyrirlitlega aðferð að láta barnið, sem statt var erlendis hjá föður sínum og hefði aldrei þurft að vera upplýst um fréttina eða að málið tengdist því, var látið hringja ítrekað í Erlu auk þess sem bréf í nafni þess voru send á stjórnendur fyrirtækisins. Þar var okkur blaðamönnum gefið að sök að ætla að velta okkur upp úr forræðismálinu og eyðileggja líf barnsins. 

Svo viðurstyggilegt var þetta athæfi að okkur var nauðugur einn kosturinn að tilkynna málið til Barnaverndaryfirvalda. Það er í fyrsta sinn á ferli okkar beggja sem að vinnsla fréttar endar með slíkri tilkynningu.

En þrátt fyrir blekkingarnar og ógeðið sem lagt var á borð stóðu stjórnendur fyrirtækisins sem betur fer með blaðamennskunni og treystu okkur til góðra verka. Fyrir það erum við þakklát.

Þegar storminum slotaði sendi Jakob Frímann bréf til Björns þar sem hann sagði áreitið hafa verið óverðskuldað og óviðeigandi. Hann tók þó hvorki á því ábyrgð né baðst afsökunar heldur benti á ný gögn sem hann taldi að sönnuðu sakleysi hans. Það gerðu þau alls ekki að okkar mati.

Því miður verða viðbrögðin við þessari yfirlýsingu líklega fyrirsjáanleg. Við reiknum með að fljótlega eftir birtingu þessarar greinar byrji annað flóð af símtölum og tölvupóstum. Viðbrögð við fyrri frétt voru þau að liðsmenn Flokks Fólksins, sem margir hverjir virðast taka flokkshollustuna fram yfir eðlilega blaðamennsku og réttlætið, kepptust við að gera lítið úr fréttaflutningnum, miðlinum og gera okkur upp annarlegar hvatir. 

Bæði höfum við fjallað um það sem margir myndu telja hættulegustu menn Íslands. Við höfum skrifað um og talað við handrukkara, morðingja, barnaníðinga og fólk með tengsl við þær erlendu mafíur sem starfa hér á landi.

En þetta eru ekki þeir sem eru endilega líklegastir til að reyna að hafa áhrif á og koma í veg fyrir umfjöllun. Nei, það er elíta Íslands – fólkið sem heldur að það sé betra en aðrir. Þetta er ríka fólkið, fína fólkið, fræga fólkið. Þetta eru þau sem miskunnarlaust beita sér og finnst ósanngjarnt að það hljóti sömu meðferð og aðrir í fjölmiðlum þegar þau gerast sek um misgjörðir, upp komist um mistök þess eða jafnvel afbrot.

Eins og við vinnslu fyrstu fréttarinnar þá höfum við öll gögn í hendi. Upptökur af völdum símtölum, tölvupóstana viðurstyggilegu í nafni barnsins og skrár yfir öll þau símtöl sem dundu á okkur þessa daga. Ef við teljum að við þurfum að verja hendur okkar frekar þá munum við birta þau gögn.

Það er þyngra en tárum taki að við teljum okkur nauðbeygð til þess að skrifa grein sem þessa. Við teljum hins vegar að starfsumhverfi blaðamanna á Íslandi versni með hverju árinu og sífellt færist í vöxt að fólk í okkar stétt verði fyrir áreiti og því gerðar upp annarlegar hvatir fyrir það eitt að vinna vinnuna sína ­– að spyrja gagnrýninna spurninga og fjalla um samfélagsleg málefni. 

Nú er mál að linni.

Við teljum að nú sé ekki lengur þörf heldur nauðsyn –  nauðsyn að íslenskir blaðamenn segi opinberlega frá þeim þöggunartilburðum, áreitni og ofbeldi sem þeir verða fyrir í starfi. Aðeins þannig getum við þróast áfram sem upplýst lýðræðissamfélag þar sem allir sitja við sama borð.

Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV
Erla Hlynsdóttir, aðstoðarritstjóri DV

 

Jakob Frímann sakaður um að beita blekkingum til að koma barni úr landi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Í gær

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt