Það var rauður þráður í gegnum vitnisburð allra fjögurra sakborninga í Rauðagerðismálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að enginn utan banamannsins, Angjelin, hefði vitað um morðið á Armando Bequirai fyrr en daginn eftir að það var framið og fjölmiðlar greindu frá atburðinum. Spurningar varahéraðssaksóknara, Kolbrúnar Benediktsdóttur, báru þess mjög merki að hún drægi þetta í efa en verjendur drógu fram í sínum spurningum vitnisburð sem studdi sakleysi viðkomandi.
Meðal ákærðu er Shpetim Querimi sem í ákæru er sagður hafa ekið ásamt Angjelin í bíl að Rauðagerði rétt fyrir miðnætti laugardagskvöldið 13. febrúar og þeir stöðvað bílinn nálægt horni Rauðagerðis og Borgargerðis. Shpetim á síðan að hafa hleypt Angjelin úr bílnum og tekið hann upp í hann aftur eftir morðið. Þeir eru síðan sagðir hafa ekið saman í Varmahlíð í Skagafirði til sumarbústaðar sem þeir dvöldust í.
Þrátt fyrir þetta segist Shpetim enga hugmynd hafa haft um morðið og Angjelin styður þann framburð. Það vakti athygli lögreglu, eftir að rannsókn málsins var komin af stað, að þeir félagar stöðvuðu bílinn í Kollafirði, nánar tiltekið við steinsteypuvegg með áletruninni „Flatur lifir.“ – Þar fannst morðsvopnið í sjónum eftir aðeins klukkustundar langa leit lögreglu.
Þegar Shpetim var spurður að því í Héraðsdómi í dag hvers vegna þeir hefðu stöðvað svona stutt frá Reykjavík sagðist Shpetim hafa þurft að stoppa til að pissa. Hann væri með sykursýki og hefði þar að auki drukkið töluvert magn af bjór fyrr um kvöldið. Á meðan Shpetim pissaði virðist Angjelin hafa losað sig við vopnið í sjóinn og ef trúa á Shpetim gerðist það án vitundar hans.
Shpetim viðurkenndi í vitnaleiðslunum í dag að Angjelin hefði sagt honum frá þeim hótunum sem hann hafi orðið fyrir af hálfu Armando og fleiri manna dagana fyrir morðið. Hafi hann ráðlagt Angjelin að annaðhvort leita til lögreglu ef hann væri með sönnunargögn fyrir hótunum eða þá einfaldlega að sættast við mennina.
Félagar Armando í undirheimum eru sagðir hafa krafist 50 milljóna króna frá Íslendingnum og vini Angjelins, Antons Kristins Þórarinssonar. Átti Angjelin að hafa milligöngu um greiðslurnar og þrýstu þeir á hann að beita Anton ofbeldi, meðal annars að taka börnin hans frá honum, til að þrýsta á hann um að greiða. Þegar Angjelin neitaði þessu var honum hótað lífláti og segist hann hafa sætt andlegu og líkamlegu ofbeldi af hendi þessara manna.