Logi Bergmann skrifaði pistil sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem hann fer yfir aðdraganda kosninganna og loforðin sem flokkarnir hafa látið streyma úr sér undanfarið. Hann líkir þessu við vin sinn sem spilar með honum golf í hverri viku. Sá vinur var fyrir nokkrum árum að vafra á netinu og fann kylfur sem hann langaði í.
Vinurinn var bláedrú þegar hann fann kylfurnar en hann sá að þær voru miklu ódýrari en í öllum búðum sem hann hafði farið í. „Hann sló til, keypti kylfurnar og beið svo spenntur eftir að fá þær sendar,“ segir Logi. „Það var mikil tilhlökkun þegar hann fór fyrsta hringinn. Alveg þar til hann sló fyrsta höggið og hluti af hausnum hrökk af kylfunni. Þá áttaði hann sig á þeirri gamalkunnu staðreynd að ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt þá er það sennilega þannig.“
Logi segir að þessi vinur hans sé mjög klár og að hann sé yfirleitt afskaplega varkár. „Þegar hann fór að hugsa málið, sitjandi yfir ónýtum kylfunum, þá áttaði hann sig á því að hann hefði getað séð þetta allt fyrir. Ef hann hefði hugsað málið aðeins lengur þá hefði hann sennilega áttað sig á því að það væri ólíklegt að einhver síða sem hann hefði ekki séð áður gæti selt vöru á lægra verði en allar golfbúðir heimsins og sennilega undir kostnaðarverði.“
„Ef við kjósum rétt þá förum við bara öll hlæjandi í heimabankann“
Loga verður stundum hugsað til vinar síns fyrir kosningar. „Kosningaloforðin eru komin og skyndilega hafa allir fundið lausnir á öllum heimsins vandamálum. Og það sem meira er: Það er allt ókeypis. Kannski ekki alveg ókeypis en það er alltaf þannig að það er einhver annar en þú sem er að fara að borga fyrir þetta,“ segir hann.
„Það er líka þannig að skyndilega er okkur sagt að allt í okkar daglega lífi sé svo glatað. Jafnvel þótt mælingar eftir mælingar hjá alþjóðastofnunum segi okkur að hér sé allt í frekar góðum málum. En við ætlum ekki að hlusta á þær núna. Hér er allt í steik og eina leiðin til að laga það er að kjósa flokka sem eru með lausnirnar á hreinu.“
Logi segir flokkana ætla að eyða fátækt og biðlistum, ná jafnrétti, hreinu lofti, nýrri stjórnarskrá og ýmislegu fleiru. „Þannig muni allir una glaðir við sitt. Sumir ganga meira að segja svo langt að þeir ætla að gefa okkur pening. Ef við kjósum rétt þá förum við bara öll hlæjandi í heimabankann.“
„Það er nefnilega einstaklega glatað að vera kominn út á völl með ónýtar kylfur“
Í pistlinum skýtur Logi svo harkalega á einn frambjóðanda, ekki verður betur séð en að hann eigi við Gunnar Smára Egilsson, oddvita Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður. „Svo eru þeir sem ætla að rétta þetta allt af með því að taka peninga af auðmönnum. Fremstur í flokki þar er maður sem hefur einmitt dundað sér við það í áratugi að tapa peningum auðmanna á ýmsum rekstri. Mögulega er það lengsti vinnustaðahrekkur allra tíma.“
Þá minnir Logi á það sem hann sagði þegar hann talaði um vin sinn, ef eitthvað er of gott til að vera satt þá er það líklega raunin „Það er nefnilega þannig að það er ekkert ókeypis í þessum heimi. Við verðum einhvern veginn að standa undir okkur. Og þótt það hljómi notalega þá er harla fátt sem bendir til þess að besta leiðin til að gera það sé að fjölga opinberum starfsmönnum og stofnunum,“ segir hann
„Stundum þarf að gera alls konar hluti sem vekja kannski ekki mikla lukku en eru nauðsynlegir og mögulega þurfum við kannski flokka sem geta gert einmitt það. Þótt það hljómi ekki jafn vel og að allt verði ókeypis. Það er nefnilega einstaklega glatað að vera kominn út á völl með ónýtar kylfur.“