Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í upphafi vikunnar var búið að taka 997.000 sýni en á síðustu dögum hafa um og yfir 3.000 sýni verið tekin daglega. Haft er eftir Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að hvert sýni kosti á bilinu fjögur til sjö þúsund krónur. Kostnaðurinn er því að lágmarki 4 milljarðar. Inni í þessum tölum eru ekki sýni sem einkarekin fyrirtæki hafa tekið.
Þegar faraldurinn skall á var talið að kostnaðurinn við eitt sýni væri um tíu þúsund krónur en það reyndist ekki rétt. Óskar sagði að hraðgreiningarpróf kosti um fjögur þúsund og PCR-próf um sjö þúsund. „Við sem heilbrigðisstofnun megum ekki rukka meira en það sem sýnið kostar. Þegar einstaklingar fara í hraðgreiningarpróf á leiðinni úr landi rukkum við einfaldlega það sem prófið kostar,“ er haft eftir honum.
Óskar sagði svolítið skrýtið að þessi áfangi hafi nú náðst, ein milljón sýna, en hann sagðist alveg eins eiga von á að talan fari upp í tvær milljónir.