Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að framboð af fasteignum til sölu sé í sögulegu lágmarki á höfuðborgarsvæðinu. Hjá ákveðnum fasteignasölum er fjöldi eigna á söluskrá aðeins þriðjungur þess sem áður var.
Lítið framboð og verðhækkanir hafa orðið til þess að fleiri sækja í húsnæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, til dæmis í Reykjanesbæ og Árborg en þar hefur fasteignaverð hækkað hratt að undanförnu.
„Varan í hillunum er sums staðar nánast búin,“ er haft eftir Kjartani Hallgeirssyni, formanni Félags fasteignasala. Hann sagði að uppsöfnuð eftirspurn, breytingar á markaði, sögulega hagstæð lánskjör og fleira hafi valdið því að fasteignasala hafi aukist um 60% á síðustu tólf mánuðum.
Einnig eru að hans sögn dæmi um að fólk sem ávaxtaði fé sitt í bönkum áður en heimsfaraldurinn skall á hafi fært það yfir í steinsteypu. Dæmi séu um fólk sem búi svo vel að eiga umframfé og geti ekki ávaxtað það í bönkum og kaup því húsnæði til að leigja út. Allt hefur þetta fækkað kostum á markaðnum. „Nú súpum við seyðið. Það myndaðist bil. Við þurfum að hinkra eftir næstu gusu nýbygginga sem dettur inn á næstu tólf mánuðum,“ sagði hann.