fbpx
Föstudagur 25.apríl 2025
Fréttir

Þórhildur Gyða harmar að Kolbeinn gefi í skyn að hún hafi logið: „Ég hef aldrei nafngreint manninn“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. september 2021 17:39

Þórhildur Gyða fékk 1,5 milljón í miskabætur frá Kolbeini árið 2018.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir segist harma það að Kolbeinn Sigþórsson, knattspyrnumaður, saki hana um lygar í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér fyrir stuttu. Þetta kemur fram í stuttu viðtali við hana sem birtist á Vísi. 

Þórhildur Gyða steig fram í viðtali á RÚV á dögunum þar sem hún lýsti kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu ónafngreinds landsliðsmanns í fótbolta í september 2017. „Hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund,“ sagði Þórhildur Gyða meðal annars í viðtalinu en hún kærði árásina til lögreglu. Síðar kom í ljós að sá landsliðsmaður var Kolbeinn Sigþórsson.

Í hönd fór löng atburðarrás sem í einfölduðu máli endaði með því að Þórhildur Gyða og vinkona hennar, sem einnig kveðst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu Kolbeins sama kvöld, náðu sáttum við knattspyrnumanninn með aðstoð lögfræðinga gegn því að Kolbeinn myndi biðjast afsökunar og greiða miskabætur.

Frásagnir stangast á

Í viðtali Þórhildar Gyðu við RÚV sagði hún, aðspurð hvort að Kolbeinn hafi neitað því að gera eitthvað á hennar hlut:

„Nei, hann  neitaði engu. Hann baðst afsökunar og játaði það sem ég sagði honum að hann hefði gert mér. Hann dró það ekki í efa.“

Í yfirlýsingu Kolbeins kemur hins vegar annað fram sem stangast á við frásögn Þórhildar Gyðu.

„Ég kannaðist ekki við að hafa áreitt þær eða beitt ofbeldi og neitaði sök. Hegðun mín var hins vegar ekki til fyrirmyndar og baðst ég afsökunar á henni,“ segir Kolbeinn í yfirlýsingunni.

Ætlaði ekki að ráðast á Kolbein persónulega

Í áðurnefndu viðtali við Vísi segir Þórhildur Gyða undrast þessi viðbrögð Kolbeins.

„Ég hef aldrei nafngreint manninn og steig ekki fram til að ráðast á hann persónulega. Þess vegna harma ég að hann sé að ráðast á mig og saka mig um að ljúga. Ég lýsti því bara sem átti sér stað svo fólk gerði sér grein fyrir alvarleikanum. Ástæðan var aldrei að fara á eftir honum persónulega, heldur til að varpa ljósi á að KSÍ væri að ljúga, það var það sem ég einblíndi á,“ segir Þórhildur

Eins og DV greindi frá fyrr í dag var það hluti af samkomulagi Þórhildar Gyðu og Kolbeins að landsliðsmaðurinn myndi greiða 3 milljónir króna til Stígamóta. Það hafi verið hugmynd hennar og vinkonu hennar en ekki hugmynd Kolbeins eins og henni fannst gefið í skyn.

„Það var okkar hugmynd, þar sem ég sjálf hef verið mjög lengi á Stígamótum og kann að meta þeirra starf. Okkur fannst að hann þyrfti að borga til baka til samfélagsins vegna þess hvernig hann hegðaði sér og út af þessari árás á okkur,“ segir Þórhildur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tvö kaffihús Starbucks opna í miðbæ Reykjavíkur

Tvö kaffihús Starbucks opna í miðbæ Reykjavíkur
Fréttir
Í gær

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“