Knattspyrnusamband Íslands segir lögmann sem hafði samband við Þórhildi Gyðu Arnardóttur og bað hana að skrifa undir þagnarskyldusamning ekki hafa verið á vegum sambandsins.
Þórhildur greindi í fréttum RÚV í kvöld frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem landsliðsmaður beitti hana árið 2017 og greindi frá því að í kjölfarið hafi lögmaður haft samband við hana og boðið henni miskabætur gegn því að skrifa undir þagnarskyldusamning – tilboð sem hún afþakkaði.
KSÍ hafa nú sent frá sér yfirlýsingu um að sá lögmaður hafi ekki verið á þeirra snærum.
„Í kjölfar viðtals við Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur í kvöldfréttum RÚV í kvöld vill KSÍ taka skýrt fram að það var ekki lögmaður á vegum KSÍ sem hafði samband við Þórhildi og bað um þagnarskyldu í umræddu máli“.