Samkvæmt könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið þá vilja 57% þeirra sem taka afstöðu að miklu meira fé verði veitt til reksturs spítalans. 28% vilja að aðeins meira fé verði veitt til hans og 13% vilja halda fjárframlögunum óbreyttum.
2% vilja veita aðeins minna fé eða miklu minna fé til hans. Almennt séð eru konur hlynntari auknum fjárveitingum en 64% þeirra vilja veita miklu meira fé í reksturinn en hjá körlum er hlutfallið 50%.
Nær enginn munur er á afstöðu fólks sem býr á landsbyggðinni og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem eru með mánaðarlaun upp á 800.000 krónur eða meira eru líklegri til að vilja halda fjárveitingunum óbreyttum en um 25% þeirra vilja að þær haldist óbreyttar eða lækki.
Menntun hefur lítil áhrif á afstöðu fólks en það gera stjórnmálaskoðanir hins vegar. Hjá stuðningsmönnum allra flokka vill meirihlutinn að meira fé verði veitt til spítalans. Hjá Sjálfstæðisflokknum vilja 42% stuðningsmanna að spítalinn fá óbreytt fjárframlög, 6% vilja að þau lækki, 20% vilja að spítalinn fái miklu meira fé og 32% að hann fái aðeins meira.