Segja má að íslenski kynlífstækjamarkaðurinn hafi nötrað þegar vefverslunin, Lovísa.is, hóf rekstur sinn fyrr í sumar. Verslunin býður upp á fjölmargar vörur frá sömu vörumerkjum og Blush.is, eins og Satisfyer og Uberlube, en á mun lægra verði. Blush er langstærsta kynlífstækjaverslun landsins og hefur verið starfandi í áratug.
Það sem vakti ekki síst athygli voru verðin sem Lovísa bauð uppá og gerði Mannlíf verðsamanburð í júlí. Þar kom fram að verðmunurinn var allt að 340 prósent. Mannlíf ræddi við Jón Þór Ágústsson, sem sagður var eigandi Lovísu.is í greininni, og fullyrti hann að verðin væru „komin til að vera og alls ekki um nein tilboð að ræða.“
DV hafði samband við Gerði Huld Arinbjarnardóttur, eiganda Blush.is, og sagðist hún taka samkeppninni fagnandi. „Við tökum að sjálfsögðu þátt í því að tryggja okkar viðskiptavinum bestu verðin og munum lækka öll verð hjá okkur til að svara samkeppninni,“ segir hún.
„Íslendingar geta því keypt Satisfyer vörur hjá Blush á ótrúlegum verðum sem hafa ekki sést áður á Íslandi eða jafnvel heiminum.“
Gerður segir að verðið sem hefur verið hingað til sé komið vegna ráðlegginga frá birgjunum um verð. „Við viljum mynda langtímasambönd við birgjana okkar og með því að fylgja þeirra ráðleggingum þá býr maður til bestu tengslin við heildsalana. En verðmunurinn hefur ekki verið neinn hingað til því við höfum alltaf verið mjög samkeppnishæf við aðrar kynlífstækjaverslanir á landinu.“
Aðspurð af hverju hún telur Lovísu.is geta undirboðið markaðinn á þennan hátt segir Gerður að þetta sé viss „strategía að bjóða upp á svona lág verð til að ná athygli.“
„Þetta er ekkert óþekkt aðferð. En svo sér maður eftir nokkra mánuði að verðin hækka hægt og rólega eftir að verslunin er komin með smá fylgi. Ég er búin að sjá það nú þegar að verðin hafa hækkað aðeins síðan verslunin opnaði. Ég trúi því allavega ekki að fyrirtæki getur staðið undan sér í rekstri og staðið í skilum á öllum sköttum og skýrslum og með starfsfólk, að þessi verð muni koma til með að endast til lengri tíma,“ segir hún.
Gerður bendir á að Blush.is sé ekki aðeins netverslun heldur einnig stærsta kynlífstækjaverslun landsins. „Við erum líka með 860 fermetra húsnæði sem þarf að reka og tíu starfsmenn í fullu starfi og það er viss kostnaður sem fylgir því,“ segir hún.
Gerður varð fyrst vör við Lovísu.is þegar hún fékk „Google Alert“ tilkynningu um að einhver væri búinn að stela textunum þeirra. Hún segir að Lovísa.is hefði afritað vörutextana þeirra og notað á sinni heimasíðu.
„Lögfræðingurinn okkar hafði samband og óskaði eftir því að þau myndu fjarlægja textana, sem þau gerðu. Núna eru þau bara með enska texta sem er frá birgjunum og má,“ segir hún.
„Það fóru þúsundir klukkutíma í að skrifa þessa texta og ég var með starfsfólk í vinnu við það, sem kostar. Ég held ég hafi greitt í kringum þrjú þúsund klukkutíma fyrir að skrifa texta við vörurnar okkar. Allir textar eru á íslensku og kynlausir. Það er kostnaðarliður sem þau greinilega ætluðu að spara sér.“
Gerður viðurkennir að henni þykir þetta smá furðulegt allt saman. „Það er pínu skrýtið að sjá nýja netverslun poppa upp með okkar textum og nákvæmlega sömu vörum og við erum að selja,“ segir hún.
„Við erum búin að eyða miklum tíma og pening í að markaðsetja þessi vörumerki og gera þau þekkt á Íslandi og það er leiðinlegt að sjá samkeppnisaðila ekki nenna að vinna heimavinnuna sína og koma með ný og fersk vörumerki fyrir neytendur heldur kjósi að selja nákvæmlega sömu vörur og við.“
Blush lækkar vöruverð strax í dag. „Við viljum passa upp á það að viðskiptavinir okkar fáu bestu verðin og bestu þjónustuna. Blush er eina kynlífstækjaverslunin sem er bæði framúrskarandi og fyrirmyndafyrirtæki á vegum CreditInfo,“ segir Gerður.
„Við erum spenntar að sjá hvernig fólk tekur í þetta. Við höfum tök á að gera þetta. Við erum stórt fyrirtæki og erum búin að vera starfandi í áratug. En þetta er ekki sanngjarnt gagnvart hinum verslununum sem ná ekki að svara þessum verðsamanburði. Það eru um sextán verslanir á Íslandi sem selja kynlífstæki og ekki næstum því allar geta tekið þátt í þessu. Og það er það sorglega við þetta, að einhver geti komið inn á markaðinn og skemmt svolítið vörumerkið. Því þetta mun enda þannig að enginn vill selja þessar vörur því enginn vill selja vöru sem kostar pening að selja. Það sjá það allir sem eru í fyrirtækjarekstri að þetta sé ekki vænlegt til árangurs til lengri tíma að koma út á núlli eða mínus.“