Aðalmeðferð í máli Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn Antoni Kristni Þórarinssyni og fleirum fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þar var Antoni, eða Tona eins og hann er gjarnan kallaður, gefið að sök að hafa í félagi við fjóra aðra haft í fórum sínum rafstuðbyssu, kókaíns auk lítilræðis af tóbaksblönduðum kannabisefnum í samkomu á heimili Antons.
Samkvæmt frétt Vísis játaði Anton sök við aðalmeðferð málsins í dag og var gert að greiða 175 þúsund króna sekt.
Líkt og DV greindi frá í júní var ákæran í nokkrum liðum, og játaði Anton sök í tveimur þeirra. Samkvæmt frétt Vísis féllu saksóknarar frá þriðja liðnum. Anton situr því í súpunni fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot.
Efnin og vopnin fundust í húsleit í húsi Antons í Akrahverfinu í Garðabænum í mars 2019, og er málið því orðið tveggja og hálfs árs gamalt.
Mikið hefur verið fjallað um Anton Kristinn undanfarin misseri. Í janúar var gögnum lekið til fjölmiðla sem þóttu sýna að Anton hefði starfað sem uppljóstrari fyrir lögregluna í mörg ár.
Öll spjót beindust svo aftur að Antoni þegar hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna ætlaðrar aðkomu að morðinu á Armando Beqirai við Rauðagerði fyrr á árinu. Gögn sem DV hefur undir höndum sýna að grunur lögreglu vegna morðsins beindist strax að Antoni og að kveikjan að morðinu hafi verið samstarf Antons við lögregluna. Það reyndist ekki á rökum reist.
Fjórir voru síðar ákærðir fyrir að hafa skipulagt og framkvæmt morðið í sameiningu. Anton var ekki á meðal þeirra. Hann er ekki lengur með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Anton ætti ekki að eiga í vandræðum með að reiða fram 176 þúsund krónur í sektargreiðslu, enda keypti hann í janúar í fyrra einbýlishús á Arnarnesi á 110 milljónir króna, og jafnaði hana svo gott sem við jörðu til þess að reisa þar enn stærra hús. Það hús er nú í byggingu.