Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, hefur ákveðið að segja sig frá trúnaðarstörfum fyrir samtökin. Við hlutverki hans tekur varaformaður SFV, Björn Bjarki Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, tekur við sem varaformaður stjórnar SFV.
„Við hjá SFV erum ákaflega þakklát Gísla Páli fyrir það mikla og góða starf sem hann hefur lagt af mörkum. Ég tek við góðu búi og hlakka til þess að vinna með öflugri stjórn og hæfu starfsfólki samtakanna að áframhaldandi uppbyggingu þeirra á kosningaári þar sem heilbrigðismálin og velferðarþjónustan fá vonandi verðugan sess í stjórnmálaumræðunni. Sem fyrr munu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu leggja mikla áherslu á hagsmunagæslu félagsmanna sinna og ekki síður að koma aðstæðum þeirra og áherslum eins vel á framfæri og nokkur er kostur,“ segir Björn Bjarki.
„Það er lúxus að geta skilið samtökin eftir á þeim velli sem þau hafa haslað sér í höndum þeirrar samhentu stjórnar sem hefur stýrt samtökunum ásamt okkur Bjarka að undanförnu. Ég met stöðuna þannig að á þessum viðsjárverðu tímum þurfi ég á allri minni orku að halda fyrir Grundarheimilin og mér þykir ákaflega vænt um að Bjarki hafi fallist á að taka við ábyrgðum mínum og skyldum fyrir SFV á þeim tímum sem hann, eins og við öll sem stöndum í stafni öldrunarþjónustu hjúkrunarheimilanna, höfum í fjölmörg horn að líta í heimaranninum,“ segir Gísli Páll.
Í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu eru hátt í 50 stofnanir, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og einkaaðilar sem starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum greiðslum frá stjórnvöldum. Samanlagt mynda aðildarfélög SFV fjölmennasta vinnustað landsins fyrir sjúkraliða og þann næststærsta fyrir hjúkrunarfræðinga.