Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Þorsteini að gosmóða valdi hins vegar áhrifum við lægri styrk en gasmengun. Hann sagði einnig að fólk sem er miðlungsviðkvæmt finni ekki fyrir gasmengun fyrr en SO2 mælist nokkur hundruð míkrógrömm í rúmmetra. Hvað varðar gosmóðuna, sem mælist sem fínt svifryk eða PM2,5, þarf hins vegar ekki að fara svo langt yfir 20 míkrógrömm í rúmmetra til að viðkvæmt fólk finni fyrir gosmóðunni.
„En svo getur kannski verið örlítið erfitt að þekkja í sundur venjulega, heiðarlegu þoku frá þessari gosmóðu,“ sagði Þorsteinn og benti á að gosmóða sé yfirleitt aðeins blágrárri eða stálgrá og það megi sjá skil á þokunni en það sé yfirleitt ekki hægt með gosmóðuna sem liggi yfirleitt yfir öllu.
Hann sagði einnig að gosmóða, sem er tveggja til þriggja daga gamall gosmökkur, geti einnig virkað eins og þéttir kjarnar í andrúmsloftinu og þannig verið þokuhvetjandi. Hvað varðar mælingar á loftgæðum þá eru þær uppfærðar á 10 til 60 mínútna fresti en tíðnin er breytileg á milli mælistöðva. Hægt er að fylgjast með lofgæðum á vefsíðunni loftgaedi.is.