„Ég vil bara að eftir að þetta lagast þá sé þetta bara svona gleymt og búið, af því það er ekkert svakalega auðvelt að vera hérna.“
Tinna Katrín Owen er lömuð fyrir neðan mitti eftir að hafa fengið örvunarskammt af bóluefninu Moderna. Talið er að lömunin sé aðeins tímabundin og þó svo læknar hafi ekki staðfest að lömunina megi rekja beint til bólusetningarinnar þá hafa engar aðrar mögulegar orsakir fundist. Tinna Katrín hvetur engu að síður alla til að láta bólusetja sig.
„Ég fór á fimmtudaginn í bólusetningu eða sem sagt að fá örvunarskammt. Daginn eftir var ég orðin svolítið slöpp og síðan um ellefu leytið á föstudeginum gat ég ekki staðið upp, svo mamma fór með mig upp á spítala,“ segir Tinna í samtali við Vísi. Hún hafði áður verið bólusett með Jansen bóluefninu en fékk örvunarskammt af Moderna.
Tinna er lömuð fyrir neðan mitti og finnur ekki fyrir snertingu í fótunum. Hún liggur sem stendur inn á taugadeild Landspítalans. Búið er að mynda á henni mænuna og ekkert finnst þar sem gæti útskýrt lömunina svo læknar búast við að um tímabundið ástand sé að ræða sem muni ganga til baka.
Tinna birti í gær myndband á TikTok og skrifaði þar „Fæ Moderna örvunarskammt – Lömuð fyrir neðan mitti“ en eðlilega hefur myndbandið fengið mikla athygli og vakið töluverðan óhug.
Tinna segist engu að síður mæla með því að allir fari í bólusetningu og segir það ekki ætlun sína að vekja hræðslu á bólusetningum.
„Ég var bara í frekar miklu sjokki og vissi ekki alveg hvað ég átti að gera. Þannig mér fannst eitthvað smá fyndið að gera þetta TikTok og fer eitthvað aðs enda vinum mínum og vinkonum og þeim fannst þetta eitthvað voða fyndið. Mér finnst þetta alveg semí fyndið ennþá en kannski ekki alveg aðstæðurnar“
Einhverjir drógu frásögn hennar í efa þar sem Lyfjastofnun hafði ekki verið tilkynnt um málið.
„Þegar ég postaði þessu, þá var ég ekki búin að tilkynna þetta. Ég hélt bara einhvern veginn að læknarnir myndu gera það. Svo var ég að lesa kommentin og þá var verið að segja mér að ég yrði að gera það sjálf. Þannig ég tilkynnti þetta núna um eitt leytið.“
Tinna segist ekki ætla að leita réttar síns þar sem um tímabundið ástand er að ræða og vonast bara til að ná bata sem fyrst.
„Ég vil bara að eftir að þetta lagast þá sé þetta bara svona gleymt og búið, af því það er ekkert svakalega auðvelt að vera hérna.“
@tinnipinni♬ Kiss Me More (feat. SZA) – Doja Cat