fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Hrun bandarískrar utanríkisstefnu í beinni: Flótti Bandaríkjamanna úr sendiráðinu í Kabul borinn saman við endalok Víetnamstríðsins – Viðkvæm gögn brennd í sendiráðinu á meðan Talibanar nálgast

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 15. ágúst 2021 12:00

Til vinstri: Chinook þyrla á sveimi yfir sendiráði Bandaríkjanna í Saigon 1975. Til hægri: Chinook þyrla Bandaríkjahers á sveimi yfir sendiráði Bandaríkjanna í Kabul í morgun.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vopnaðar hersveitir Talibana eru komnar inn í Kabul, höfuðborg Afganistan. Í yfirlýsingu frá embættismönnum ríkisstjórnar Afganistan segir að Talibanar hafa sent samningamenn að forsetahöllinni og er niðurstöðu þeirra samningaviðræðna beðið með mikilli eftirvæntingu.

Hafa Talibanar jafnframt lofað að leyfa þeim sem vilja að flýja borgina, og að markmið þeirra væri friðsamleg yfirtaka á stjórn höfuðborgarinnar, og þar með ríkisins. Á CNN í morgun kom fram að þúsundir hefði þegið þetta „boð.“ Þar á meðal eru nánustu ráðgjafar Ashraf Ghani, forseta landsins, sem nú eru á flugvellinum í Kabul að bíða eftir flugi út úr landinu.

Aðeins örfáar vikur eru liðnar frá því að Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði yfirtöku Talibana á stjórn landsins mjög ólíklega. Fyrr í vikunni var skýrsla bandaríkjastjórnar opinberuð þar sem kom fram að hugsanlegt væri að Talibanar gætu verið komnir að Kabul innan 30 til 90 daga. Í samtali á CNN sagði Clarissa Ward, blaðamaður stöðvarinnar í Afganistan að hún hefði hlegið að skýrslunni og talið óhugsandi að Talibanar yrðu við borgarmörkin eftir mánuð. Það var fyrir þremur dögum síðan.

Bandaríkjamenn sendu jafnframt í vikunni fimm þúsund manna hersveit til Kabul til þess að aðstoða við brottflutning bandarískra ríkisborgara frá landinu. Fyrst og fremst eru þar hundruð starfsmanna bandaríska sendiráðsins auk fjölmargra afganskra borgaralegra starfsmanna sendiráðsins og bandarískra stofnana og fyrirtækja í landinu.

Bandaríkjastjórn sendi þá jafnframt í gær frá sér tilkynningu þar sem sagði að Talibanar hefðu verið látnir vita af því að hinum mikla mætti Bandaríkjahers yrði að mæta ef Talibanar gerðu árásir á bandaríska þegna í landinu. Um það hefur jafnframt verið rætt af stjórnmálaskýrendum vestanhafs að líklegt sé að Talibanar bíði nú við borgarhlið Kabul á meðan Bandaríkjamenn klári að rýma starfsstöðvar sínar í von um að koma í veg fyrir átök. Þegar sú rýming hefur átt sér stað muni hersveitir halda för sinni áfram og taka yfir borgina, óháð því hvað kæmi út úr samningaviðræðum Talibana og ríkisstjórnar Afganistan.

390 þúsund Afganir hafa flúið heimili sín og eru á vergangi, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, yfirgnæfandi meirihluti þeirra á flótta undan Talibönum sem hafa lagt hverja héraðshöfuðborgina á fætur annarri undir sig á undanförnum dögum og vikum.

Í næsta mánuði verða 20 ár liðin frá því að liðsmenn Al Qaeda rændu fjórum flugvélum og flugu þremur þeirra á byggingar í New York og Washingtonborg í Bandaríkjunum. Sú fjórða hrapaði áður en flugræningjunum tókst líklegt ætlunarverk sitt.

Árásirnar 11. september 2001 gjörbreyttu bandarískri utanríkisstefnu. George Bush hafði aðeins verið forseti í rúmt hálft ár og utanríkisstefna forvera hans, Bill Clinton, svo til ráðandi. Clintonstjórnin byggði stefnu sína helst til á svokölluðu mjúku valdi, eða soft power, þ.e. getunni til þess að fá ríki heims til þess að vilja fylgja forystu Bandaríkjamanna án þvingana eða hótana.

Mikil breyting varð á utanríkisstefnu Bandaríkjanna í kjölfar árásanna, sem meðal annars birtist í innrás Bandaríkjanna í Afganistan og Írak. Sú fyrrnefnda átti sér stað í október árið 2001, aðeins nokkrum vikum eftir árásirnar 11. september. Því stríði lauk fyrir nokkrum vikum þegar síðustu hermenn Bandaríkjanna voru fluttir úr landinu.

Ljóst er að hin snögga breyting á högum Afgana sem nú blasir við kom Bandaríkjastjórn, og heimsbyggðinni allri, í opna skjöldu. Miðlar heimsins keppast nú við að birta myndir af þyrlum sveima yfir Kabul og bera þannig atburði dagsins í dag, leynt og ljóst, saman við sams konar atburði í Saigon 1975, þegar hersveitir Ho Chi Minh nálguðust Saigon og bandarískt starfsfólk sendiráðsins þar var ferjað burt með þyrlum. Markaði atburðurinn endalok Víetnam stríðsins og afskiptum Bandaríkjanna af átökum í landinu. Til að bæta gráu ofan á svart voru samskonar þyrlur notaðar þá og nú. Hinar risavöxnu Chinook þyrlur, líkt og þær sem sjást á myndinni hér að ofan, geta borið allt að 12 tonna farm og komast tugir manna þannig með í hverja ferð.

Samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs er starfsfólkið flutt á alþjóðaflugvöllinn í höfuðborginni og fólkinu flogið þaðan í farþegavélum flughers Bandaríkjanna til herstöðva í Japan, Suður Kóreu og Evrópu.

Á meðan Bandaríkjamenn flytja starfsfólk sitt úr sendiráðinu semja Talibanar og ríkisstjórn Afgana um framtíð Afganistan og öllum ljóst að ekkert stöðvar Talibana upp úr þessu. Raunar voru Talibanarnir komnir að úthverfum Kabul strax í gær.

Bandaríkjastjórn hefur lítið tjáð sig opinberlega um atburðina, en samkvæmt heimildum CNN og blaðamanna CBS er stefnt að því að rýma sendiráðið að fullu. Í fyrstu stóð til að skilja nokkra lykilstarfsmenn eftir í sendiráðinu, en frá því hefur nú verið horfið.

Þá herma heimildir CNN að reykur hafi sést stíga úr sendiráðinu síðustu daga og þykir það gefa til kynna að starfsmenn sendiráðsins séu að brenna viðkvæm gögn og eyða tölvubúnaði. Þá herma sömu heimildir að á meðal hermannanna fimm þúsund sem sendir voru til landsins í vikunni til þess að aðstoða við rýminguna séu tæknimenn sem munu sjá um að eyða viðkvæmum tölvu- og tæknibúnaði úr sendiráðinu og öðrum húsum í borginni á vegum Bandaríkjastjórnar, þar á meðal leyniþjónustu hennar, CIA.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt