Leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag leggst mjög gegn sóttvarnatakmörkunum og segir þær óþarfar og skaðlegar. Staðan hafi breyst í grundvallaratriðum eftir bólusetningar. Í leiðaranum segir:
„Fyrir bóluefnin skiptu skimanir sköpum til þess að viðhalda opnu samfélagi innanlands og opna landið aftur til útlanda. Bóluefnin og hátt hlutfall bólusettra breyttu því öllu, bæði innanlands og gagnvart umheiminum.
Miðað við reynslu nágrannalanda á borð við Bretland og Danmörku – þar sem bólusetning hefur gengið mjög vel, en ekki í neinni líkingu við það sem Íslendingar státa af – standast víðtækar, almennar takmarkanir ekki skoðun.“
Höfundur segir það hafa verið gleðiefni þegar yfirlýsingar ráðamanna um síðustu helgi bentu til þess að þeir áttuðu sig á hinni breyttu stöðu. Nú sé sá tími runninn upp er við þurfum að læra að lifa með veirunni:
„Það er full ástæða til þess að fagna því að ríkisstjórnin hafi áttað sig á því að fyrr eða síðar yrði þjóðin að læra að lifa með veirunni — líkt og við lifum með ýmsum smitsjúkdómum öðrum – og að lífið yrði að halda áfram án takmarkana um leið og fært væri. Flest bendir til þess að sá tími sé núna. Bóluefnin verja okkur að mestu leyti gegn veikindum og nær algerlega gegn ótímabærum dauðdaga. Í krafti þeirra er okkur kleift að lifa með veirunni án altækra og íþyngjandi sóttvarnaraðgerða.“
Það hafi hins vegar valdið miklum vonbrigðum er ríkisstjórnin ákvað að fara að tillögum sóttvarnalæknis og framlengja sóttvarnatakmarkanir óbreyttar í tvær vikur. Sóttvarnaatakmarkanir við þær aðstæður sem nú eru séu óverjandi og hafi slæmar og víðtækar afleiðingar:
„Við þessar aðstæður er það í engu samræmi við tilefnið þegar leikskólabörn eru í tugatali send í sóttkví vegna smits starfsmanns. Er það verjandi að í framhaldsskólum séu stúdentsefni næsta vors að hefja þriðja námsárið undir takmörkun, sem óhjákvæmlega mun setja varanlegt mark á menntun þeirra? Er hið ómarkvissa og kostnaðarsama hindrunarhlaup farþega á leið til Íslands til annars vænlegt en að fæla fólk frá ferðalögum?“
Leiðarahöfundur segir að aðgerðir stjórnvalda gegn veirunni verði að hafa skýr og mælanleg markmið. Einnig segir:
„Stjórnvöldum ber ávallt að gæta meðalhófs, en nú ríður einnig á að ekki sé alið á óþörfum ótta og að meðölin reynist ekki skaðlegri en meinið.“
Þess má geta að í fréttum gærdagsins kom fram að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hugleiðir að leggja til hertari sóttvarnatakmarkanir ef skilaboð berast frá Landspítalanum um að hann anni ekki álagi vegna Covid-innlagna.