Í dag skrifaði Hannes Hólmsteinn pistil inn á Mannlíf.is þar sem hann leiðréttir grein sem Reynir Traustason skrifaði inn á sama miðil í gærkvöldi. Reynir Traustason er einnig skráður sem aðilinn sem setti pistilinn hans Hannesar inn.
Greinin sem birtist í gær ber nafnið „Prófessorinn hlaut þrisvar dóm – Huldumaður bjargaði Hannesi Hólmsteini“ og fellur undir flokkinn #Baksýnisspegillinn. Í greininni rifjar Reynir upp grein sem birtist í Stundinni árið 2016 en þar fjallar hann um eitt dómsmál Hannesar. Sú grein ber nafnið „Huldumaður forðaði Hannesi Hólmsteini frá fangelsi“ og er einnig skrifuð af Reyni Traustasyni.
Í greininni sem birtist á Mannlíf í gær er fjallað um þrjá dóma sem Hannes hefur hlotið, sá fyrsti var fyrir að reka útvarpsstöðina Frjálst útvarp á tímum verkfalls hjá BSRB en huldumaður greiddi sektina sem Hannes var dæmdur til að greiða í málinu.
Annan dóminn hlaut hann vegna ummæla um Jón Ólafsson, auðmann, en hann lét falla á ráðstefnu norrænna blaðamanna árið 1999, þess efnis að Jón hafi auðgast á vafasaman hátt. Jón stefndi Hannesi fyrir enskum dómstólum þar sem úrdráttur úr erindi hans var birtur á enskri heimasíðu Hannesar og þurfti Hannes að greiða Jóni 11 milljónir króna í skaðabætur.
Í þriðja dómnum sem Hannes hlaut var hann dæmdur fyrir brot á höfundarrétti þegar hann skrifaði bók um æskuverk Halldórs Laxness.
Reynir hélt því fram að Hannes hafi verið dæmdur fyrir ritstuld en ekki brot á höfundarrétti og leiðrétti Hannes það í pistlinum.
„Ég notaði sömu aðferðir og Laxness í bókum eins og Heimsljósi og Íslandsklukkunni og Pétur Gunnarsson í bókum sínum um Þórberg. En auðvitað giltu aðrar reglur um þá en mig. Þeir máttu það, sem ég mátti ekki. Bókmenntafræðingar sögðu í aðdáunartón, að eitt einkenni Laxness væri, hvernig hann ynni eigin texta úr texta annarra!“ segir Hannes.
Hann leiðréttir einnig skrifin um breska dóminn en hann var síðar ógiltur þar í landi þar sem Hannesi hafði ekki verið stefnt eftir réttum reglum. Reynir tók það ekki fram í greininni á Mannlíf.is.
Hannes tók þó fram að eini dómurinn sem hann hefur hlotið og væri stoltur af væri fyrsti dómurinn, fyrir að reka Frjálst útvarp.
Ekki nóg með það heldur ákvað Hannes líka senda inn grein í Stundina til höfuðs greinar Stefáns Sævars um sig sem birtist jafnframt í Stundinni. Grein Stefáns var meira að segja gagnrýni á grein Hannesar sem birtist í Morgunblaðinu.
Stefán setti út á að Hannes gæfi í skyn að stutt væri á milli sósíalisma og fasisma þar sem að dæmi væru um sósíalista sem gerðust síðar nasistar. Stefán benti á nokkur dæmi um sósíalista sem síðar gerðust frjálshyggjumenn, og spurði hvort það sannaði tengsl sósíalisma og frjálshyggju.
Þá vék Stefán sér að frjálshyggjumanninum Ludwig von Mises, sem talaði fallega um fasisma. Hann gagnrýnir Hannes fyrir að benda ekki á það í bók sinni Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, en Hannes segir það einfaldlega rangt. Hann hafi fjallað um athugasemd Miles í umræddri bók sinni.