Baráttan við lúsmý hér á landi í sumar hefur verið blóðug og hafa margir lent illa í bandsettri flugunni. Ljóst er að fleiri þúsund Íslendingar glíma við vandamál vegna lúsmýsins en stofnaður hefur verið Facebook-hópurinn Lúsmý á Íslandi, hópurinn telur rúmlega 8 þúsund meðlimi.
Í hópnum deila Íslendingar ýmis konar ráðum og leiðbeiningum, hvort sem það er til að koma í veg fyrir bit eða til að lágmarka sársauka þeirra sem hafa verið bitin. Til að mynda er mælt með því að fólk sjóði vatn og setji teskeið í heitt vatnið og svo á bitin svo þau lagist. „Hefur algjörlega bjargað mér,“ segir kona nokkur um það húsráð og önnur tekur undir.
Þá segir fólk frá hryllingssögum, eins og einn sem segist hafa flúið sumarbústaðinn sinn vegna fjölda smita eftir lúsmýið.
Ein kona virðist þó vera komin með lausn við óværunni. „Við fjölskyldan erum öll útbitin af lúsmýinu og hef prófað allskonar húsráð sem virka mis illa…,“ segir konan en svo prófaði hún nýtt húsráð sem virkaði nokkuð ágætlega. Húsráðið snýst um að setja hvítlauksolíu við opinn glugga.
„Í gær setti ég skál með hvítlauksolíu við opinn glugga (logn úti) og ekkert nýtt bit daginn eftir. Nokkrar höfðu drukknað í olíunni. Hafið þið prófað þetta?“ segir konan. „Nei, þess virði að prófa. Mér skilst að edik í skál geri sama gagn en ekki búin að prófa,“ segir önnur kona í athugasemd. „Athyglisvert,“ segir svo maður nokkur.