Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að 74% af ökumönnunum hafi valið að aka í gegnum göngin. Erlendir ferðamenn styðjast mikið við leiðsöguforrit sem beina þeim frekar í Víkurskarð en göngin en þau koma ekki alltaf upp í leiðsöguforritum eða ferðahandbókum sem margir erlendir ökumenn nota.
„Í júlí var ellefu prósentum meiri umferð um göngin en í sama mánuði árið 2019 þegar það var ekkert Covid,“ sagði Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga. Hann sagði að júlí hafi verið frábær, bæði tekjulega og veðurfarslega. „Allt hefur gengið snurðulaust fyrir sig. Enginn bilaður bíll eða neitt slíkt í miðjum göngum. Það voru reyndar kantljós að bila rétt áðan en það verður gert við þau fljótlega. Umferðin gekk fínt allan mánuðinn og við erum í raun mjög sáttir enda höfum við aldrei náð mánaðartekjum yfir 100 milljónum,“ sagði hann.
Toppurinn í umferð um göngin náðist í viku 29 en það er viku fyrr en venjulega. „Þá færði sólin sig aðeins suður þó hún sé komin aftur núna norður. Það var nóg til að fólk tók upp tjaldhælana og færði sig. Allur júlímánuður var stígandi fyrir utan síðustu viku þegar umferðin var rólegri,“ sagði Valgeir.