Sumar nefndir hafa skýran tilgang, til dæmis þær sem starfa samkvæmt lögum um ákveðin málefni og verkefni, svo sem áfrýjunarnefndir. Þá eru aðrar sem starfa samkvæmt kjarasamningum og hafa þá til dæmis þann tilgang að útkljá um deilumál tengt starfskjörum ákveðinna starfsstétta. Enn aðrar láta sig tiltekin málaflokk varða, til dæmis í þeim tilgangi að leggja til breytingar á hinum og þessum lögum og reglum. Þá eru gjarnan stofnaðar nefndir utan um viðburði eða átaksverkefni og starfa þá tímabundið. Svo eru þingmannanefndir, svo sem framtíðarnefnd forsætisráðuneytisins einnig teknar með í listann, enda er nefndin á vegum ráðuneytis, þó hún sé skipuð þingmönnum. Þá eru að lokum nokkur dæmi um að nefndir séu skipaðar til þess að endurskoða nefndarskipulag eða skipan annarra nefnda. Nokkurskonar nefndanefndir, mætti segja.
Allur gangur er á því hvort og þá hver greiðir fyrir setu í slíkum nefndum. Í sumum sitja ráðherrar, ráðuneytisstjórar eða aðrir embættismenn, og er þá oft litið á nefndarsetur sem hluti af þeirra átta tíma vinnudegi fyrir ríkið. Aðrar nefndir krefjast þess að ráðherra eða aðrir embættismenn skipi nefndarmenn, stundum að fenginni tilnefningu, en þá er meginreglan sú að greitt sé fyrir nefndarstörfin, ýmist með fastri mánaðarlegri greiðslu, eða þá að greitt er fyrir hvern haldinn fund.
DV skoðaði nefndirnar og þá sem í þeim sitja en ljóst er að þar kennir ýmissa grasa. Bæði eru ýmsar nefndir að störfum sem gæti komið á óvart að séu yfirleitt til. Þá er það einnig svo að í nefndunum sitja oft „vel valdir“ pólitískt skipaðir einstaklingar, hliðhollir þeim sem í nefndina skipa. Vinir, vandamenn, embættismenn og frægir eru þá meðal þeirra sem sitja í ríkisnefndunum 644. DV birtir hér nokkra af þeim helstu.
Tekið skal fram að upplýsingar sem hér að neðan koma fram eru byggðar á áðurnefndum lista Stjórnarráðsins um nefndir og nefndarmenn á vegum ríkisins.
Athygli kann til dæmis að vekja að Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, situr í Áfrýjunarnefnd ágreiningsmála á kirkjulegum vettvangi, en þangað er hægt að skjóta ágreiningsmálum sem verða innan kirkjunnar eða sem varða hana með öðrum hætti. Með lögreglustjóranum í nefndinni situr Hildur Briem héraðsdómari.
Aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hann Ágúst Bjarni Garðarsson vermir sæti í Byggðamálaráði og er fulltrúi ráðherra síns þar. Hinn aðstoðarmaður Sigurðar, hún Ingveldur Sæmundsdóttir, situr svo í Fjarskiptaráði, einnig fulltrúi ráðherrans.
Flokksbróðir Sigurðar Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, skipaði Stefán Vagn Stefánsson, arftaka Ásmundar í oddvitasæti Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi sem formann Flóttamannanefndar. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði jafnframt hana Þórdísi Sigurðardóttur, fyrrum varaþingmann Sjálfstæðisflokksins í ráðið.
Ásmundur Einar skipaði þá jafnframt fyrrum ráðherra úr röðum Framsóknarmanna, hana Siv Friðleifsdóttur, í nefnd um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Nefndin var skipuð 2018. Hvort Siv hafi öðlast sérfræðiþekkingu á hagsæld og lífsgæðum eftir að hún hætti í pólitík, liggur ekki fyrir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menntamála og þingmaður Framsóknarflokksins, skipaði flokkssystur sína, hana Sæunni Stefánsdóttur, fyrrum þingmann Reykvíkinga, í stöðu formanns Íslensku UNESCO nefndarinnar til ársins 2022.
Sjálfstæðismenn hafa þá raðað sér í stjórn Grænlandssjóðs. Nefndin er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en Alþingi skipar aðal- og varamann sem og utanríkisráðuneytið. Aðalmaður utanríkisráðuneytisins er Óttarr Örn Guðlaugsson, fyrrum formaður Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og varamaður er Þórdís Pálsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þá eru aðal- og varamenn skipaðir af Alþingi þau Bryndís Haraldsdóttir og Vilhjálmur Árnason.
Dómsmálaráðherra skipar prófnefnd um réttindi til að verða héraðsdómslögmaður. Formaður nefndarinnar ætti að vera landsmönnum kunnur en þar er á ferð Þorsteinn Davíðsson, héraðsdómari og sonur Davíðs Oddssonar fyrrum forsætisráðherra.
Stjórn LÍN er tekin í lista nefndanna 644, þó þar sé vissulega um stjórn ríkisfyrirtækis að ræða. Þar situr Lárus S. Lárusson sem stjórnarformaður, en Lárus er innmúraður Framsóknarmaður og starfar jafnframt sem formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í bönkunum. Þá situr Teitur Björn Einarsson, fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðismanna í stjórninni en hann er tilnefndur af Bjarna Benediktssyni. Teitur Björn er mágur Illuga Gunnarssonar, fyrrum aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Teitur er jafnframt sonur Einars Odds Kristjánssonar, fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Teitur bauð sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins síðast og endaði í þriðja sæti í Norðvesturkjördæmi. Hans bíður því að öllum líkindum varaþingmannssæti eftir komandi þingkosningar.
Það getur ekki vantað stuðið í nefnd um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, en þar sitja bæði Gréta Salóme Stefánsdóttir og Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmenn með meiru, ásamt öðrum.
Nokkrir frægir leynast svo í skólanefndum framhaldsskólanna, en þeir eru á forræði ríkisins.
Dilja Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra er formaður skólanefndar Borgarholtsskóla, en hún er einnig í 2. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður fyrir þingkosningarnar í haust. Hinn aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs er Borgar Þór Einarsson, sem er í Skólanefnd Menntaskólans í Reykjavík.
Frosti Logason er þá aðalmaður í Skólanefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra er jafnframt varamaður í skólanefnd Fjölbrautaskólans við Ármúla og Menntaskólans við Hamrahlíð. Í skólanefnd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum sitja meðal annarra þau Daníel Geir Moritz, uppistandari og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri. Það ætti því að geta orðið gott partí á þeim fundum.
Sjálfstæðismennirnir Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill, Jórunn Pála Jónasdóttir og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúar, auk Óttars Arnar Guðlaugssonar, fyrrum formanns Varðar, sitja hlið við hlið í skólanefnd Menntaskólans við Sund.
Sjálfstæðismenn er víðar að finna í skrám ríkisnefnda, en Sigurður Kári Kristjánsson er formaður starfshóps um happdrætti og fjárhættuspil, sem dómsmálaráðherra skipar. Sigurður var þingmaður Sjálfstæðismanna um árabil. Bjarni Benediktsson passar jafnframt upp á flokksbróður sinn og skipaði hann einnig í stjórn Náttúruhamfaratrygginga Íslands.
Svo eru nefndirnar sem geta ekki annað en komið á óvart að séu til, til dæmis Nemaleyfisnefnd í bókbandi 2020-2024, sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skipar. Þar sitja þrír fulltrúar og fjalla um umsóknir frá fyrirtækjum sem vilja taka nemendur í starfsþjálfun í bókbandi. Sambærilegar nefndir eru til fyrir prentsmíð, hárgreiðslu, prentun, snyrtifræði, bifvélavirkjun og fleiru. Án nokkurs vafa er meira að gera í sumum þeirra en öðrum.
Þá eru jafnframt reknar sveinsprófsnefndir í hinum ýmsu iðngreinum, þar á meðal eru eins og áður, bókbandi, kjólasaumi, klæðskurði, skósmíði og veggfóðrun. Allt eru þetta að sjálfsögðu viðurkenndar iðngreinar, en einhverjir gætu þó spurt hvort til þurfi að kosta sérstakri sveinsprófsnefnd í þessum iðngreinum.
Segja má að menntamálaráðherra sé duglegur að skipa nefndir en á meðal þeirra sem ráðherrann skipar er Starfshópur um eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Athygli vekur að í hópnum 13 einstaklingar og af þeim eru 11 af sama kyni. Samskonar kynjahalla má finna í Verkefnisstjórn um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, en þar eru 9 af 11 af sama kyni.
Aðrir hópar sem kunna að vekja undran eru Sérfræðinganefnd um framandi lífverur. Fimm manns sitja í stjórn bleikjukynbótaverkefnis á Hólum, en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skipar þá stjórn. Ullarmatsnefnd starfar samkvæmt lögum og í henni sitja þrír, en nefndin flokkar og metur gærur og ull. Viðbragðsteymi við landgöngu hvítabjarna á Íslandi hefur sem betur fer sjaldan þurft að kalla saman, en það er engu að síður starfandi. Þar situr formaður auk fulltrúa Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóra og Matvælastofnunar.