fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Kolbrún gagnrýnir gagnrýnisleysi

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 23. júlí 2021 07:04

Kolbrún Bergþórsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í pistli í Fréttablaðinu í dag gagnrýnir Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnisleysi í tengslum við sóttvarnaaðgerðir og annað tengt heimsfaraldrinum. Í pistlinum, sem er undir fyrirsögninni „Gagnrýnisleysi“, bendir Kolbrún á að í upphafi hafi þjóðinni verið sagt að sóttvarnaaðgerðir miðuðu að því að koma í veg fyrir að sjúkrahúsin yfirfylltust af veiku fólki. Því hafi þjóðin samþykkt sóttvarnaaðgerðir. Næst hafi þjóðinni verið sagt að bólusetning væri leiðin út úr heimsfaraldrinum og fólk hafi því streymt í bólusetningu. Nú fái þjóðin að vita að bólusetningar dugi ekki en á sama tíma séu sjúkrahúsin ekki að fyllast af COVID-19-sjúklingum, fólk sé ekki að deyja og langflestir, sem veikjast finni fyrir vægum einkennum.

Kolbrún bendir á að þrátt fyrir þetta sé talin þörf á að herða aðgerðir en um leið megi búast við meiri mótþróa hjá þjóðinni en áður. „Um leið má búast við mun meiri mótþróa hjá almenningi en áður. Fólk þarf að sjá vit í boðum og bönnum, ef það sér það ekki þá brýtur það reglur sem því finnst vera ósanngjarnar. Það er algjörlega ljóst að skerðingar á frelsi fólks í Covid-fárinu verða að vera eins vægar og mögulegt er. Það er síðan ekki verjandi að viðhalda þeim þegar smitum fækkar og veikindi eru ekki alvarleg. Ekki sakar að hafa í huga að sjúkdómalaust samfélag verður aldrei til. Vonandi þykir það svo ekki dæmi um harðlyndi þegar bent er á að dauðinn er óumflýjanlegur hluti af lífinu en ekki nýtilkomin ógn,“ segir hún.

Hún víkur síðan að ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaaðgerðir og segir að ofureðlilegt sé að innan ríkisstjórnarinnar séu ekki allir sömu skoðunar. „Hér skal því haldið fram að það sé beinlínis æskilegt að einhugur ríki ekki,“ segir hún. Hún segir að engin ástæða sé til að því sé tekið með þögn þegar mannréttindi og athafnafrelsi fólks er takmarkað eins og gert hefur verið nú á tímum heimsfaraldursins. „Það er líka óþarfi að láta eins og það sé nánast guðlast að vera ósammála sóttvarnalækni. Á sínum tíma sagði þríeykið að gagnrýni væri nauðsynleg, ekki væri gott ef hætt væri að spyrja um nauðsyn aðgerða. Vonandi er þríeykið enn þessarar skoðunar,“ segir hún síðan.

Því næst segir hún að það sé undarlegt að flokkslínur ráði viðhorfi stjórnmálamanna til takmarkana og frelsissviptingar í faraldrinum. „Sjálfstæðismenn hafa verið ötulastir við að minna á mikilvægi einstaklingsfrelsisins. Í öðrum flokkum hafa menn varla leyft sér að efast og spurt fárra spurninga. Satt best að segja hefur verið ömurlegt að horfa upp á það gagnrýnisleysi. Þegar réttindi almennings eru skert eins og gerst hefur í Covid þá á fólk um leið rétt á að vita hversu lengi höft verði viðvarandi; sem sagt hvaða aðstæður þurfi að skapast til að þeim sé aflétt. Engin tegund hafta á síðan að festa sig í sessi og vera flokkuð sem „eðlilegt ástand“,“ segir hún.

Í niðurlagi pistilsins segir hún að stjórnmálamenn hafi verið værukærir hvað varðar að standa vörð um mannréttindi almennings á tímum heimsfaraldursins. Undantekningar séu þó á þessu og nefnir hún þar sérstaklega Áslaugu Önru Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, sem stendur mannréttindavaktina af röggsemi að mati Kolbrúnar.  „Á dögunum sagði hún: „Markmiðunum má ekki breyta í sífellu.“ Einmitt það hefur gerst, þjóðinni er sagt eitt í dag og annað á morgun. Slíkt dregur mjög úr vilja fólks til að fylgja reglum enda eru þær að taka stöðugum breytingum og verða æ mótsagnakenndari,“ segir Kolbrún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum