Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að um 220 manns séu í einangrun og í eftirliti hjá COVID-göngudeild Landspítalans. Langflestir eru með lítil sem engin einkenni, einn er með aukin og svæsnari einkenni og einn með alvarleg einkenni. Morgunblaðið hefur eftir Runólfi Pálssyni, yfirlækni COVID-göngudeildarinnar, að hann hafi ekki góða tilfinningu vegna þeirrar stefnu sem faraldurinn hefur tekið. Hann telur að búast megi við að einhverjir muni veikjast alvarlega þrátt fyrir að bólusetning verji flesta fyrir alvarlegum veikindum.
Af þeim sem nú eru í einangrun er 100 á aldrinum 18 til 29 ára eða 44% af heildarfjöldanum. Þórólfur Guðnason staðfesti fyrr í vikunni að flest smitin tengist skemmtistöðum og í Bankastræti og ferð ungmenna til Lundúna.
Margir hafa kallað eftir takmörkunum á afgreiðslutíma skemmtistaða og banni við útihátíðum á borð við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum vegna stöðunnar sem er uppi. Morgunblaðið hefur eftir Þórólfi að slíkar takmarkanir séu til umræðu. „Á stað eins og Þjóðhátíð getur einn einstaklingur fengið ansi mikið og útbreitt smit eftir eina helgi sem væri mjög erfitt að eiga við. Við gætum fengið hundruð og þúsundir smita eftir slíkt,“ er haft eftir honum.