Leikarinn og leikstjórinn Þröstur Guðbjartsson er látinn, 68 ára að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítalans þann 17. júlí. Fréttablaðið greindi frá.
Þröstur fæddist árið 1952 og lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978, eins og greinir frá á Leiklistarvefnum. Hann hefur starfað fyrir hin ýmsu leikhús og leikhópa, meðal annars Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Leikhús Frú Emilíu og fleiri.
Þröstur lék einnig í kvikmyndum, meðal annars Sódómu Reykjavík. Hann var mikilvirkur leikstjóri og setti hátt í 80 leiksýningar á svið. Naut hann mikillar viðurkenningar sem leikstjóri og er þessa lýsingu á vinnubrögðum hans að finna á Leiklistarvefnum: „Honum er einstaklega lagið að ná því besta út úr misreyndum áhugaleikurum og þeim aðstæðum sem hann vinnur við á hverjum tíma.“