Razvan Nicolas heitir rúmenski maðurinn sem er talinn hafa orðið Daníel Eiríkssyni að bana á föstudaginn langa. Í gær greindi DV frá því að hann væri flúinn af landi brott, líklega á fölskum skilríkjum. Hann hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum síðustu daga.
Vísir greindi frá því í dag að til standi að gefa út evrópska handtökuskipun á hendur honum. Lögregla telur sig vita hvar hann sé niður kominn, hann hafi flogið til London og þaðan til Rúmeníu. Haft er eftir Margeiri Sveinssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að hann sé bjartsýnn með að ná manninum aftur til landsins.
Daníel Eiríksson fannst illa leikinn á jörðinni fyrir utan heimili sitt í Kópavogi á föstudaginn langa, þann 2. apríl síðastliðinn, aðeins tveimur klukkustundum áður en hann átti að mæta í viðtal hjá ráðgjafa í aðdraganda innlagnar inn á meðferðarheimilið Vog. Daginn eftir, þann 3. apríl, var Daníel úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.
Til að byrja með voru þrír rúmenskir karlmenn handteknir, en tveimur var sleppt úr haldi. Razvan Nicolas var einn eftir. Bíll hans kom við sögu í málinu en grunur leikur á að ekið hafi verið á Daníel. Razvan hefur sagt að um slys hafi verið að ræða. Daníel hafi hangið utan á bílnum og fallið í jörðina þegar maðurinn ók burtu. Líkt og DV hefur greint frá leggja ástvinir Daníels lítinn trúnað á þá frásögn.
Einnig kom fram að ástvinir Daníels litu svo á að Razvan iðraðist ekki gjörða sinna. Á samfélagsmiðlinum TikTok stærir hann sig af seðlabúntum og skartgripum, en fjölskylda Daníels telur hann afla sér mikilla tekna með sölu fíkniefna. Þá má einnig sjá myndbönd af honum í flugvél, en eitt þeirra birtist fyrir viku síðan.
Hér má sjá myndbönd sem birtist á TikTok-reikningi hans:
„Það er greinilega ekki nógu vel fylgst með honum, það var búið að lofa okkur að lögreglan væri að fylgjast með ferðum hans á meðan hann væri i farbanni. Svo flýr hann land eins og ekkert sé eðlilegra Allt okkar traust er farið,“ segir Guðný Sigríður Eiríksdóttir, systir Daníels heitins, í samtali við DV.
„Þetta á ekki að gera gerst! Þetta er algjörlega út í hött. Þessir glæpamenn koma inn og út úr landinu á fölsuðum skilríkjum,“ segir Guðný enn fremur. „Hann er með milljónir á sér og er að auglýsa það á samfélagsmiðlum. Hann er ekki að vinna hér á landi en er líklega að selja eiturlyf.“