fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Tinnu var nauðgað þegar hún var 12 ára – Átti að koma aftur næsta dag til að þrífa blóðið

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 9. júlí 2021 13:00

Tinna Jóhönnudóttir var aðeins barn þegar henni var nauðgað. Mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tinnu Jóhönnudóttur var nauðgað þegar hún var aðeins tólf ára gömul. Árásin hafði gríðarleg áhrif á líf hennar. Maðurinn var ákærður en var ekki sakfelldur og Tinna kölluð athyglissjúkur lygari í kjölfarið.

Undanfarið hefur önnur bylgja #metoo átt sér stað hér á landi þar sem konur stíga fram undir nafni og skila skömminni.  Tinna deilir sinni reynslu í von um betri framtíð fyrir þolendur. Hún segir óþolandi hversu margir leyfa gerendum að njóta vafans og halda fast í að þeir séu saklausir þar til sekt er sönnuð. Hennar nauðgari sé sannarlega ekki saklaus þó hann hafi ekki verið dæmdur.

Það var um sumar, fyrir öllum þessum árum, sem Tinna var að fara að hitta vin sinn en þáði boð stóra bróður hans um að koma inn fyrir og bíða eftir honum þar. „Ég hélt að þetta væri allt mér að kenna því ég hefði átt að vita betur en að láta bjóða mér inn,“ segir hún.

Setti hana svo í bað

„Ég var tólf ára þegar mér var nauðgað á hryllilegan hátt. Hann nauðgaði mér þrisvar, lék sér að mér og dró mig á hárinu á milli herbergja. Hann þvoði mér svo á eftir og sagði að hann myndi meiða fjölskylduna mína ef ég segði frá.“

Hún segist ekki vita nákvæmlega hvað honum gekk til með að þrífa hana, hvort hann var meðvitað að reyna að fjarlægja sönnunargögn.

„Ég man bara að ég var lömuð inni í mér, uppgefin og lá bara þæg í baðkarinu meðan hann þreif mig. Þegar ég hugsa um þetta eftir á hugsa ég stundum: Hversu oft hefur þessi maður stundað þetta og komist upp með það?“

Eftir baðið henti hann henni út úr íbúðinni áður en hún fékk tækifæri til að klæða sig. „Hann henti mér út nakinni með fötin á eftir mér, og sagði mér að koma næsta dag til að þrífa blóðið. Það kom reyndar aldrei til þess að ég þrifi það. Blóðið kom út af því sem hann gerði mér enda var ég bara barn sem hann nauðgaði þrisvar, báðum megin. Ég veit ekki af hverju hann dró mig milli herbergja. Kannski var hitt herbergið orðið of blóðugt. Hann ýtti mér líka inn í skáp og hélt mér fastri, þrýsti hendinni að munninum á mér og hellti upp í mig óblönduðu vodka sem helltist yfir mig alla.“

Hringdi heim til hennar

Til að sýna vald sitt hafi hann síðan hringt heim til hennar þar sem hún bjó í foreldrahúsum. „Það hitti þannig á að ég svaraði. Kannski hafði hann hringt áður og skellt á ef einhver annar svaraði. Ég veit það ekki. En ég varð stjörf af hræðslu. Hann minnti mig á samkomulagið okkar, um að ég mætti ekki segja frá því þá þyrfti hann að standa við hótunina.“

Hann skipaði henni að koma aftur til sín næsta dag en þá var hann með gesti hjá sér. „Ég þorði ekki öðru en að hlýða. Hann hafði meitt mig svo ólýsanlega mikið að hann hefði ekki getað meitt mig meira. Ég trúði líka hverju orði um að hann gæti skaðað systkini mín. En þarna plataði hann mig til að koma inn í þaulskipulagðar aðstæður þar sem hann var með vinum sínum og gat látið eins og það væri allt í góðu á milli okkar. Eflaust gerði hann þetta til að draga úr trúverðugleika mínum ef ég myndi segja eitthvað. Sem það svo gerði. Það er allt í móðu frá því ég kom þarna inn en frægasta lag Bob Marley hljómaði í bakgrunninum og alltaf þegar ég heyri lög með honum kveikir það á minningunum um allt sem mér fannst ég hafa gert vitlaust.“

Óttaðist að vera ólétt

Eftir nauðgunina var Tinna síðan sannfærð um að hún væri ólétt. „Ég hafði aldrei sofið hjá neinum og vissi ekki betur en að maður yrði bara óléttur eftir samfarir. Ég man að ég var svo hrædd um að það „kæmist upp um mig“ þannig, að ég væri ólétt og þá myndu allir vita. Ég spurði stelpu í skólanum um þetta, hvernig þetta virkaði þegar maður eignaðist barn, en þóttist bara vera svöl og að ég væri að pæla í þessu,“ segir hún og varð eilítið létt þegar hún komst að því að mögulega væri hún ekki endilega ólétt.

Tinna reyndi að halda grímunni, líka gagnvart fjölskyldu sinni, en áfallið hafði of mikil áhrif á hana. „Ég breyttist mikið, var mikið ein og hafði litla matarlyst. Mamma sá í gegn um þetta og grátbað mig um að segja sér hvað væri að. Á endanum brotnaði ég saman og sagði þeim allt. Þau höfðu þá samband við lögregluna og allt ferlið fór í gang. Þetta var alls ekki það sem ég vildi og ég hataði þau í raun fyrir að gera mér þetta. Ég var svo skelfilega hrædd um hvað gæti gerst.“

Gefin var út ákæra í málinu en ekki fyrir nauðgun heldur samræði við barn. „Lögfræðingurinn sagði að það væri ómögulegt að vinna þetta með nauðgunarákæru.“ En hann var sýknaður.

„Hann vann málið og er því saklaus í nafni laganna. Og allir sögðu að ég væri athyglissjúkur lygari, og töluðu um að mér hefði nú greinilega ekki verið nauðgað fyrst ég gerði þetta en ekki hitt.

Ég var bara barn. Ég hreinlega dó innra með mér. Þetta var yfirþyrmandi áfall sem tók mig mörg ár að vinna úr og skilja að þetta var ekki mér að kenna. Mér leið oft eins og ég væri að deyja þegar málið var í gangi og þegar dómurinn var kveðinn upp þá bara gat ég ekki meir. Ég hræddist ekkert lengur og mér var sama hver meiddi mig. Það sem helst hélt mér á lífi voru litlu systkini mín. Ég gat ekki gert þeim það að deyja. Ég elskaði þau svo mikið og þau mig.

Ég reyndi að deyfa minningarnar og láta eins og þetta hefði ekki gerst. Ég gat ekki einu sinni sagt orðið „nauðgun“ upphátt.

Tveimur árum seinna fór mig að dreyma atburðinn aftur og aftur í fleiri mánuði þar til ég horfðist í augu við sannleikann og hætti að flýja sársaukann.“

Móðurhlutverkið breytti henni

Tinna segir að það hafi ekki verið fyrr en hún varð sjálf móðir sem henni fannst lífsgleðin koma til baka. Maðurinn hennar hafi líka reynst henni ómetanlegur stuðningur og sannfært hana um að hún ætti allt gott skilið.

„Í gegn um árin reyndi ég að vinna jafnt og þétt í mínum málum. Ég talaði ekki jafn opinskátt um nauðgunina við sálfræðingana og annað fagfólk sem ég hitti í þeirri vinnu og ég geri nú. Þau voru mörg sárin sem ég þurfti að vinna úr.

Það gerðist síðan ómeðvitað þegar dóttir mín var komin á sama aldur og ég var þegar mér var nauðgað að ég upplifði margar erfiðar tilfinningar tengdar dóttur minni en skildi ekki af hverju. Ég ræddi um það við sálfræðing sem hjálpaði mé að skilja, að ég væri að syrgja því ég speglaði mig í henni og skildi hversu saklaus ég hafði verið í öllu sem hafði komið fyrir mig.“

Tinna flutti til Noregs þar sem hún er nú búsett ásamt fjölskyldu sinni. „Ég fann fyrir létti þegar ég flutti burt og fann að þá var ég tilbúin til að taka við hjálpinni sem ég þurfti. Fylgifiskarnir fyrir mína heilsu hafa verið margir enda tekur líkaminn við andlegu höggunum þó við áttum okkur ekki á því.“

„Þetta er mitt framlag“

Hún ákvað að opna sig um nauðgunina á Facebook í gær því hún vill betri framtíð fyrir börnin sín og er komin með nóg af gerendameðvirkni.

Í samtali við DV segir hún þetta vera mikil tímamót.

„Ég er stolt af sjálfri mér að koma þessu frá mér, heiðarlega og algjörlega án filters. Ég þarf hvorki samúð né vorkunn. Ég bara vona að mín saga geti hjálpað fólki að átta sig á afleiðingum kynferðisofbeldis og hvernig það getur eyðilagt líf fólks. Það eru svo margar frásagnir sem þurfa að komast upp á yfirborðið. Skömmin á ekki að vera hjá okkur þolendum og mér finnst algjörlega magnað hversu margir eru tilbúnir til að leyfa gerenda að njóta vafans frekar en að trúa þolanda.

Við verðum öll að berjast fyrir betra samfélagi og betri heim. Þetta er mitt framlag og legg það fram með ró í hjarta eftir öll þessi ár.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum