BBC segir í umfjöllun sinni að tilraunin hafi „heppnast mjög vel“ og hafi orðið til þess að margir starfsmenn hafi unnið færri klukkustundir í viku hverri.
Tilraunin stóð yfir hjá Reykjavíkurborg frá 2015 til 2019. Starfsfólk í ákveðnum störfum skilaði styttri vinnuviku en hélt fyrri launum. Í skýrslu Autonomy kemur fram að framleiðnin hafi staðið í stað eða aukist á flestum vinnustaðanna.
2.500 starfsmenn tóku þátt í tilrauninni og styttist vinnuvika margra úr 40 klukkustundum í 35 eða 36 klukkustundir.
Skýrsluhöfundar segja að tilraunin hafi orðið til þess að stéttarfélög hafi samið við vinnuveitendur um styttingu vinnuvikunnar og að nú hafi 86% af vinnuaflinu fengið hana stytta eða það sé í bígerð. Laun skerðist ekki við þetta.
Starfsfólk er sagt ánægt með styttri vinnuviku, það finni minna fyrir stressi og minni líkur séu á að það láti undan miklu vinnuálagi. Einnig kemur fram að starfsfólkið segi að jafnvægið á milli vinnu og einkalífs hafi batnað.
„Þessi rannsókn sýnir að stærsta tilraun heimsins með styttingu vinnuvikunnar í opinbera geiranum var í alla stað vel heppnuð. Hún sýnir að opinberi geirinn er nógu þroskaður til að vera frumherji í styttingu vinnuvikunnar og að stjórnvöld í öðrum ríkjum geta lært af þessu,“ segir Will Stronge, hjá Autonomy.