Þórir S. Gröndal, fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku, er ekki sáttur með það að Íslendingar skuli oft blóta á ensku. Hann segir okkur eiga nóg af góðum blótsyrðum sem hægt er að nota. Hann ræðir þetta í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
„Vinsælustu blótsyrði í enskri tungu eru mörg sótt í kynlíf og kynfæri. Af því að landar okkar eiga það til að apa svo margt eftir útlendingunum er verið að reyna að troða einu þessara ljótu ensku orða inn í okkar ástkæra ylhýra mál. Það er orðið f…g, sem margir landsmenn, sér í lagi þeir yngri, virðast nú nota í tíma og ótíma. Ég er ekki viss um að allir notendur þess viti um uppruna orðsins. En hvað með okkar ágætu íslensku blótsyrði? Af þeim eigum við gnótt og eru þau hvert öðru kjarnmeiri og þjóðlegri,“ segir Þórir og telur upp nokkur góð orð.
Andskotinn, helvíti, djöfullinn, skrattinn, fjárinn og fjandinn eru meðal þeirra orða sem Þórir stingur upp á að nota og sýnir nokkrar skemmtilegar samsetningar.
„Farðu til andskotans; þú ert helvítis asni; þú ert bara djöfulsins fífl. Bíttu í þig og éttu skít o.s.frv. Það er grátlegt að fólk skuli nota erlent klám-bölv þegar við eigum öll þessi fögru íslensku blótsyrði,“ segir hann.
Þórir fer um víðan völl í pistlinum og víkur sér næst að föðurlandsást Íslendinga.
„Veljum íslenskt; kaupum lambakjöt og fiskibollur í dós, drekkum íslenskan bjór og bölvum á íslensku. Ég var yfir mig hissa að lesa á moggavefnum að yfirvöldin væru að fetta fingur út í unga frumkvöðla sem farnir voru að framleiða klámþætti á netinu. Er ekki betra að landsmenn horfi á íslenskt klám en erlent? Þar fyrir utan eru okkar stelpur sætari,“ segir hann.
Þórir segist þarna vera kominn í „gagnrýnisstuð“ og ræðir næst hatursmál á Íslandi.
„Útlendingahatur, kynþáttahatur, gyðingahatur, hatur á samkynhneigðum og öllum hinum kynferðistegundunum. Þegar ég var að alast upp var íslensk þjóð talin laus við allt slíkt, að minnsta kosti á yfirborðinu. Það hefur kannski verið hræsni í okkur en við elskuðum allt útlenskt, vorum bestu vinir blámanna og dáðum Ísraelsmenn. Samkynhneigðir voru allir lokaðir inni í sínum skápum og fólk var annaðhvort karlkyns eða kvenkyns og fékkst þar engu um breytt. Og nánast engir útlendingar bjuggu á Íslandi,“ segir hann og vill meina að þó að allir hafi verið sætir og saklausir út á við voru ekki allir svo ljúfir á bakvið tjöldin.
Hann segir að Íslendingar hafi sagt ýmsa ljóta hluti um fólk frá öðrum löndum. Hann þakkar fyrir að samfélagsmiðlar hafi ekki verið til á þessum tíma.
„Ég held að þessi samtöl okkar strákanna hafi ekki flokkast undir hatur, frekar stríðni eða kerskni. Dani kölluðum við bauna, Norðmenn nojara, Englendinga tjalla. Nánustu frændur okkur kölluðum við Færeyinga á hvolfi. Svart fólk uppnefndum við hottintotta og halanegra. Ef okkur líkaði ekki framkoma landa okkar sögðum við að þeir væru bara sveitamenn. Stúlkur sem áttu ameríska hermenn að vinum kölluðum við kanamellur,“ segir Þórir og segir einn „asnabrandara“ í lok greinarinnar.
„Daníel danski spurði vin sinn, Lars hinn norska, hvað hann væri að gera. „Ég er að skrifa Sven, kunningja mínum í Svíþjóð,“ svaraði hann. „Hvaða bull er þetta í þér, Lars, þú veist að þú kannt ekki að skrifa,“ sagði þá Daníel. „Það er allt í lagi,“ svaraði Lars, „Sven kann ekki að lesa!“.“