„Langar okkur fyrst af öllu að biðjast afsökunar á óvarfærnu orðalagi okkar,“ segja þáttargerðarmennirnir Snæbjörn Brynjarsson og Heiðar Sumarliðason í yfirlýsingu sem þeir hafa sent á DV. Snæbjörn og Heiðar stýra hinum hressilega hlaðvarpsþætti „Eldur og brennisteinn“ sem birtist á Vísir.is. Íþróttafréttamaðurinn Svava Grétarsdóttir gagnrýndi harðlega orðfæri þeirra félaga í þættinum, einkum þessi:
„Það er eins og þetta sé einhver íþrótt innfæddra að nauðga konum sem koma frá meginlandinu.“
DV greindi frá þessu fyrr í dag:
Um leið og þeir félagar biðjast afsökunar á óvarlegu orðalagi sínu benda þeir á að þeir hafi verið að vitna í orð annars aðila. Frétt DV hafi því slitið orð þeirra úr samhengi. Það sama gildir þá væntanlega um gagnrýni Svövu.
Yfirlýsing félaganna er eftirfarandi:
„Vegna fréttaflutnings af nýjasta þætti Elds og brennisteins langar okkur fyrst af öllu að biðjast afsökunar á óvarfærnu orðalagi okkar í þættinum. Við áttum að gæta orða okkar betur og biðjum við alla þá sem við höfum sært innilegrar afsökunar á því.
Við viljum aftur á móti benda á það sem ekki kom fram í fréttaflutningi DV af umræðu okkar, að þarna vorum við að tala um og vísa í bloggfærslu ónefnds framhaldsskólakennara og brottflutts Vestmannaeyings sem birtist á bloggvef Morgunblaðsins, og var lesin upp í þættinum. Þar lýsti hann ákveðnum aðförum innfæddra í Vestmannaeyjum, sem gengu út á að nauðga öldauðum konum og lét sem þetta hefði verið eitthvað sem þar var stundað. Orð okkar voru einungis túlkun á skrifum þessa manns frá árinu 2012.
Blaðamaður DV kaus hins vegar að líta algjörlega framhjá því og minntist ekki einu orði á samhengið.
Við skiljum hins vegar vel að Eyjamönnum hafi sárnað það hve óvarlega við orðuðum hlutina og eftir á að hyggja hefðum við átt að sleppa því að minnast á þennan pistil. Við áttum að tjá okkur af meiri varkárni og biðjumst innilegrar afsökunar á því.“