fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Ævintýralegar ásakanir gegn Róberti Wessmann – Þetta eru „óvildarmennirnir“ sem hann á að hafa beitt sér gegn

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 30. júní 2021 11:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alcotech, steig nýlega fram með alvarlegar ásakanir um hegðun Róberts Wessmanns, núverandi forstjóra Alvogen og nú hefur Alvogen stefnt honum fyrir dóm.

Halldór sendi rétt í þessu yfirlýsingu á fjölmiðla um greinargerð er hann hefur skilað í málinu sem hluta af vörn hans en hann segir Alvogen hafa stefnt honum, lekið nafni hans og heilsufarsupplýsingum og rift ráðningarsamningi hans eftir að hann steig fram sem uppljóstrari.  Umræddar heilsufarsupplýsingar var veikindavottorð sem komið var til Kjarnans í óþökk Halldórs.

Klaufaleg tilraun til hvítþvotts

Í greinargerðinni fer Halldór nánar í saumanna á meintri ósæmilegri hegðun Róberts Wessmans, meðal annars hegðun hans undir áhrifum áfengis, líkamsárásum á nána samstarfsmenn, morðhótanir gegn fyrrum samstarfsmönnum og fleira.

Í tilefni af vörn minni fyrir héraðsdómi, vil ég byrja á að svara sérstaklega fullyrðingum um að engar stoðir hafi verið fyrir mínum ábendingum. Yfirlýsingarnar eru augljós markleysa og í besta falli klaufaleg tilraun til „hvítþvotts“, þar sem festa eigi þöggun og meðvirkni gagnvart Róbert í sessi innan fyrirtækjanna.“

Halldór segir að Róbert hafi nýtt lykilstarfsmenn lyfjafyrirtækjanna til að koma höggi á óvildarmenn sína, meðal annars með umfangsmiklum leka á trúnaðargögnum er varða bankaleynd. Segir hann „skæruliðahernað“ Róberts gegn á þriðja tug óvildarmanna hafa staðið yfir í ellefu ár og hafi þær aðgerðir gengið út á að klekkja á þekktum athafnamönnum í íslensku viðskiptalífi, embættismönnum og blaðamaönnum. Hafi Halldór reynt að benda stjórnum fyrirtækjanna á þessa hegðun en þeir hafi ekki sýnt því áhuga.

Róbert beitti sér sérstaklega gegn óvildarmönnum

Halldór hefur lagt fram gögn máli sínu til stuðnings sem eiga að benda til þess að Róbert hafi beitt sér gegn meðal annars gegn:

„Andra Sveinsson, Birgi Bieltvedt,  Birgi Má Ragnarsson, Björgólf Thor Björgólfsson, Björgólf Guðmundsson, Claudio Albrecht fyrrv. forstjóra Actavis, Ernu Kristjánsdóttur og syni hennar Ólaf og Kristján Guðmundssyni, Frank Pitt, Guðmund Kristjánsson, Gunnar Fjalar Helgason, Heiðar Má Guðjónsson, Magnús Þorsteinsson, Matthías Johannessen, Peter Prock fyrrv. aðstoðarforstjóra Actavis, Ragnar Þórison og Tómas Áka Gestson.“

Halldór segir að gögnum innan úr bankastjórnum Landsbanka Íslands og Straumi banka hafi markvisst verið lekið og má þar meðal annars nefna samskipti bankaráðs við Fjármálaeftirlitið, upplýsingar um lánafyrirgreiðslur meintra óvildarmanna og ýmis önnur samskipti og gögn sem bundin eru bankaleynd og áttu sér stað fyrir fjármálahrunið.  Halldór segist meðal annars hafa lagt fram gögn sem sýna hvernig Róbert fól Árna Harðarsyni aðstoðarforstjóra Alvogen að leka trúnaðarupplýsingum innan úr Landsbanka og Straumi til fjölmiðils, sem hann hafi fjármagnað og síðar eignast. Halldór segir að stór hluti samskiptanna hafi átt sér stað í gegnum tölvupósta fyrirtækisins, en einnig í gegnum netföng með dulnöfnum.

Málsókn í nafni hluthafa

Í greinargerð Halldórs kemur einnig fram að Róbert hafi falið lykilstjórnendum fyrirtækjanna, þar á meðal Árna Harðarsyni aðstoðarforstjóra, Þór Kristjánssyni framkvæmdastjóra og fyrrum bankaráðsmanni hjá Landsbankanum og Straumi, ásamt Halldóri að undirbúa og leiða hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni.

Málsóknin var gerð í nafni fyrrum hluthafa Landsbankans, þrátt fyrir að AlvogenAlvotech eða Róbert sjálfur hafi aldrei verið hluthafar í bankanum. Þá var Þór Kristjánsson ráðinn til Alvogen á árinu 2010 gagngert til að afhenda upplýsingar sem nýst gætu í fyrirhugaðri málsókn Róberts. Lögmannsstofan Landslög tók við umræddum gögnum frá duldum netföngum Þórs og hefur leitt málið síðastliðin 11 ár fyrir hönd Róberts.

Halldór segist hafa afhent tugi tölvupósta og annarra dómsskjala með greinargerð sinni sem staðfesta ofangreinda málavexti og sýna hvernig Róbert og lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech höfðu fulla stjórn á umræddri hópmálsókn með Landslögum, og dreifðu trúnaðarupplýsingum til fjölmiðla í störfum sínum fyrir fyrirtækin. Halldór segist hafa sinnt þessum verkefnum af fúsum og frjálsum vilja, líkt og aðrir lykilstjórnendur fyrirtækjanna og muni ekki firra sig ábyrgð í þeim efnum.

Heilræði til Róberts

Í yfirlýsingu segir Halldór að hann hafi ekki átt annan kost en að stíga fram sem uppljóstrari og greina stjórnum fyrirtækjanna frá málavöxtum.

„Ég benti „slökkviliðinu“ á það hvernig Róbert nýtti undirmenn sína og fjármuni fyrirtækjanna óspart í þeim tilgangi að koma höggi á meinta óvildarmenn. Á löngum köflum gafst lítill tími til að sinna mikilvægum málefnum innan fyrirtækjanna vegna verkefna sem höfðu ekkert með rekstur þeirra að gera.  Að lokum var svo komið að ég sem stjórnandi og hluthafi gat ekki horft lengur upp á þráhyggju og hatur Róberts gagnvart þessum aðilum og hvernig fyrirtækjunum var beitt í þeim efnum. Ég gerði alvarlegar athugasemdir við Róbert sumarið 2018 og aftur á átakafundi þann 1. september 2020 vegna þessara mála, en þá voru málefni meintra óvildarmanna orðin einstaklega persónuleg og meiðandi. Í framhaldinu átti ég ekki annan kost en að stíga fram sem uppljóstrari og greina stjórnum fyrirtækjanna frá málavöxtum.

Oft var það nóg að vera faðir meints óvildarmanns eða jafnvel að starfa með föður hans til að fá á baukinn. Í ákveðnum tilvikum reyndist það meira að segja dýrkeypt að hafa þegið boð í afmæli. Skæruhernaður Róberts í gegnum Alvogen og Alvotech, ásamt umtalsverðum fjárfestingum í fjölmiðlum á undanförnum árum, sýna hversu miklu var tjaldað til þegar klekkja átti á meintum óvildarmönnum.“

Halldór segir Róbert hafa neitað að tjá sig um ósæmilega hegðun sína og vísað í þeim málum til trúnaðarskyldu. Það hafi þó ekki hindrað hann í því að leka nafni Halldórs til fjölmiðla ásamt heilsufarsupplýsinga

„Róbert hefur sjálfur neitað að tjá sig um líkamsárásir og ósæmilega hegðun undir áhrifum áfengis. Hann segist bundinn trúnaði og bætti reyndar um betur í nýlegu viðtali við Fréttablaðið er hann sagði að um væri að ræða viðkvæmt starfsmannamál. Róbert telur þó málið ekki viðkvæmara en svo að hann lét leka nafni mínu til fjölmiðla ásamt heilsufarsupplýsingum og hefur ekki brugðist við ítrekuðum sáttaboðum.“

Næst beinir Halldór orðum sínum  beint til Róberts:

Ekki bera fyrir þig trúnað, því það ríkir enginn trúnaður um ofbeldi og ósæmilega hegðun, ekki segjast hafa verið í flugvél, það er bara svo kjánalegt og ekki velta þér upp úr því þó að ég hitti eða tali við meinta óvildarmenn þína. Sýndu þess í stað auðmýkt og virðingu og svaraðu af heiðarleika. Þannig gerir þú hreint fyrir þínum dyrum og setur hagsmuni fyrirtækjanna framar þínum eigin.“

Rétt er að taka fram að stjórn Alvogen hefur látið rannsaka starfshætti Róberts og segir að engin ástæða hafi reynst til frekar aðgerða og engan fót fyrir ásökunum Halldórs. Halldór stendur þó fast við ásakanir sínar og hefur meðal annars komið á fót vefsíðu um málið.

Alvowhistleblower.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Dró upp hníf eftir rifrildi á samkomustað

Dró upp hníf eftir rifrildi á samkomustað
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum