Maður vopnaður hlaðinni skambyssu ruddist inn á kaffistofu Samhjálpar í hádeginu og hafði í hótunum við gesti. „Það greip um sig mikil hræðsla meðal viðstaddra á meðan þessu stóð. Fólk er algjörlega miður sín,“ segir aðili sem var á staðnum en vildi ekki koma fram undir nafni.
Samkvæmt heimildum DV er sá sem ruddist inn ekki einn af fastakúnnum kaffistofunnar. Ekki liggur fyrir hvað manninum gekk til.
Lögreglu var þegar gert viðvart um málið. Þegar hana bar að garði hafði hinn vopnaði lagt á flótta. Var hann handtekinn skömmu síðar og hald lagt á vopnið. Maðurinn hefur komið áður við sögu lögreglu og er málið litið mjög alvarlegum augum.
Yfirlýsing frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu:
Á tólfta tímanum í dag var tilkynnt um karlmann í nágrenni lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, sem grunur var um að hefði skotvopn undir höndum. Brugðist var skjótt við og handtók sérsveit ríkislögreglustjóra manninn á göngustíg við Sæbraut skömmu fyrir hádegi.
Lagt var hald á skotvopnið, en ekki er vitað hvað manninum gekk til.