„Í grænum fréttum er þetta helst: Borgarráð samþykkti í morgun samninga við þrjú stærstu olíufélögin um þriðjungs fækkun bensínstöðva í Reykjavík á næstu árum. Í staðinn koma íbúðir og hverfistengd þjónusta. Dælum fækkar um 33%.“
Svona hefst röð færslna sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, birti á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Í færslunum fer Dagur yfir það hvaða bensínstöðvar eru að fjúka og hvað mun koma í staðinn fyrir þær.
Dagur byrjar á að fara yfir það hvað mun gerast þar sem bensínstöð Skeljungs á Birkimelnum í Vesturbænum er í dag. Þar munu verða íbúðir með þjónustu á jarðhæð.
Á Birkimel munu rísa íbúðir með þjónustu á jarðhæð. Deiliskipulagsferli er eftir – fyrir þessa lóð og aðrar sem samningar náðust um. pic.twitter.com/bGEO4fyuAR
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
Bensínstöðin á Birkimelnum er ekki eina bensínstöðin í Vesturbænum sem mun taka pokann sinn. Útibú N1 á Ægissíðunni mun líka hverfa en þar verða einnig íbúðir. „Löngu tímabært að leggja af bensínsölu á þessum stað,“ segir Dagur.
Ægissíðan verður spennadi þróunarreitur fyrir íbúðir og löngu tímabært að leggja af bensinsölu á þessu stað. Þjónusta getur komið á jarðhæð. pic.twitter.com/q0paA9exlb
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
Í Álfheimum mun bensínstöð Olís hverfa. Með brotthvarfi stöðvarinnar losnar pláss fyrir allt að 49 íbúðir á góðum stað í Reykjavík.
Í Álfheimum geta komið allt að 49 íbúðir og þjónusta á frábærum stað við Glæsibæ og Skeifuna. pic.twitter.com/GMu2Jx4yoe
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
Bensínstöð Olís í Mjóddinni mun hverfa en í stað hennar koma 2 dælur og pláss til að þróa íbúðarhúsnæði á svæðinu.
Í stað bensínstöðvar í Mjódd koma 2 dælur og umtalsverð þróun íbúðarhúsnæðis norður að Stekkjabakka. pic.twitter.com/hRqBAPP6UX
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
ÓB bensínstöðin á Snorrabrautinni er á leiðinni í burtu en Dagur segir að í stað hennar muni rísa þar fallegt borgarhús.
Á horni Snorrabrautar og Egilsgötu mun rísa fallegt borgarhús í takt við umbreytingu Snorrabrautar í borgargötu. pic.twitter.com/DMo61eJzZZ
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
Bensínstöð N1 á Hringbraut hefur lengi verið griðastaður ölvaðra menntaskólanema eftir menntaskólaböll sem haldin eru í Origo-höllinni. Svangir og fullir menntaskólanemar munu bráðlega þurfa að leita á önnur mið þegar dansleikjum lýkur þar sem N1 á Hringbraut er á brottleið.
Framtíð bensínstöðvar viö Hringbraut ræðst í samkeppni um skipulag Umferðarmiðstövar-reits. Þarna eru miklir og spennandi uppbyggingarmöguleikar. pic.twitter.com/ZLA4djTVRm
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
N1 í Stóragerði er að syngja sína síðustu daga en bensínstöðin verður rifin og í stað hennar mun íbúðabyggð rísa á svæðinu.
Bensínstöðin í Stóragerði verður rifin og íbúðabyggð kemur í staðinn. pic.twitter.com/8bxcDZQ7LA
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
N1 í Skógarseli fær að fjúka en á svæðinu verður reist íbúðabyggð. Þá verður hugsanlega matvöruverslun á hluta jarðhæðarinnar samkvæmt Degi.
Íbúðabyggð kemur í stað bensínstöðvar á móti ÍR-heimilinu. Hugsanlega verður matvöruverslun á hluta jarðhæðar. pic.twitter.com/cv0AEPUobM
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
Sömu söguna er að segja með bensínstöð Orkunnar í Skógarhlíð en þar eiga í staðinn að koma íbúðir auk atvinnuhúsnæðis.
Íbuðir og atvinnuhúsnæði kemur í stað bensínstöðvar Voö Skógarhlíð. pic.twitter.com/834p8bYENe
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
Síðast en ekki síst þá mun bensínstöð Skeljungs við Suðurfell hverfa en lóðin mun skiptast í tvennt. Dagur segir að það skapi verulegt svæði fyrir uppbyggingu.
Lóðin við Suðurfell skiptist í tvennt, þannig al verulegt svæði myndast fyrir uppbyggingu. pic.twitter.com/FnyTeuhfY3
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 24, 2021
„Allir þessir samningar eru olíufélögunum til hróss. Saman erum við að feta okkur í átt að grænni framtíð með góðri borgarþróun. Borgin beitir samningum og grænum hvötum til að ná margþættum markmiðum: í loftslagsmálum, þéttingu byggðar, eflingu íbúðahverfa og bættum lífsgæðum,“ segir Dagur svo í lokin.
Einn netverji hefur áhyggjur af því að skortur verði á pumpum fyrir reiðhjóladekk þar sem þær eru á mörgum bensínstöðvum „Verður stöðvum til þess að pumpa í reiðhjóladekk komið upp í staðinn fyrir þær sem hverfa?“ spyr netverjinn. „Þeim þarf alla vega að fjölga,“ segir Dagur við spurningunni.