Þann 17. júní síðastliðinn birtist auglýsing í Morgunblaðinu sem tók heila opnu. Auglýsingin hafði það að markmiði að vara við kannabisneyslu. Rauði krossinn er á meðal þeirra sem koma fram í auglýsingunni en nú kemur fram að það hafi verið gert án þeirra samþykkis.
„Kannabisneysla … byrjar oft á saklausu fikti. Endar oft í uppgjöf, geðrænum vandamálum og jafnvel ótímabærum dauða. Við viljum koma í veg fyrir það. Kannabis er líka hættulegt fíkniefni,“ stendur í auglýsingunni sem vakti úlfúð og hefur verið ansi umdeilt eftir að hún var birt.
Sjá einnig: Auglýsing um kannabisneyslu vekur úlfúð:„Í hvaða andveruleika erum við komin?“
Íslenska lögregluforlagið og Félag íslenskra fíkniefnalögreglumanna bera ábyrgð á auglýsingunni, en mikill fjöldi fyrirtækja, embætta, stofnanna og sveitarfélaga koma fram í henni. Þar má auk Rauða krossins nefna Vínbúðina, KFC, Melabúðina, Mjólkursamsöluna, Bakarameistarann, Happdrætti Háskóla Íslands, Mjölni, N1, Samherja, og fleiri.
Rauði krossinn birti í dag færslu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem fram kemur að nafn Rauða krossins hafi verið í auglýsingunni án þeirra samþykkis. „Nýlega birti félag fíkniefnalögreglumanna auglýsingu í Morgunblaðinu. Þar kom nafn Rauða krossins fram án okkar samþykkis. Það þykir okkur mjög miður enda skilaboð auglýsingarinnar alls ekki í anda áherslu Rauða krossins á skaðaminnkandi og mannúðlega nálgun,“ segir í færslunni.
„Við teljum framsetningu skilaboðanna því miður valda hræðslu frekar en að ýta undir forvarnir. Þá kemur á óvart að sjá fleiri aðila sem talað hafa fyrir skaðaminnkandi nálgun á þessum lista en kannski lentu fleiri þar án samþykkis.“
Við teljum framsetningu skilaboðanna því miður valda hræðslu frekar en að ýta undir forvarnir. Þá kemur á óvart að sjá fleiri aðila sem talað hafa fyrir skaðaminnkandi nálgun á þessum lista en kannski lentu fleiri þar án samþykkis.
— Rauði krossinn – Icelandic Red Cross (@raudikrossinn) June 21, 2021